141. löggjafarþing — 12. fundur,  26. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[18:35]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir yfirvegaða og framsýna ræðu sem var á dýptina og ber þá nýrra við í þessari umræðu sem hefur einkum fjallað um pólitískt þras, þrasmál og tæknileg atriði. Ég vil fá að spinna þráðinn áfram.

Ég held að það tæki sem við erum að búa til sem er rammaáætlun um orkunýtingu og það sem ég vil kalla verndarnýtingu sé að því leyti gallað að við tiltökum ekki nægilega vel skilin á milli biðflokksins og orkunýtingarflokksins. Það sem ég á við er að orkunýtingarflokkurinn á ekki að virka, eins og hæstv. umhverfisráðherra sagði einhvern tíma, eins og hlaðborð fyrir orkufyrirtækin þannig að allt sem ekki er í vernd sé þar með opið fyrir þau að fara í. Ég tel að það eigi miklu frekar að hafa, segjum tvo biðflokka. Annan sem bíður vegna rannsóknarhagsmuna, skulum við kalla það, hinn sem bíður vegna þess að þar eru að vísu virkjanlegir kostir sem menn sætta sig við að geta þurft að fórna landsvæðum fyrir en gera það ekki strax vegna þess að það verður ekki gert fyrr en þörf er á því. Þá er sú þörf ekki skilgreind í rammaáætlun eða þingsályktunartillögunni sem hér yrði rædd heldur yrði hún skilgreind í einhvers konar orkustefnu sem tengdist atvinnumálum og uppbyggingu til lengri tíma. Menn setji ekki öll þessi náttúrusvæði á einn reit í einu heldur hugsi það fyrir næstu fimm eða tíu ár hvað þeir vilji virkja eða hvort þeir vilji virkja.

Ég vil minna á orð hv. þingmanns á þeim nefndarfundi sem hann talaði um, þegar hann (Forseti hringir.) dró saman þá niðurstöðu að spurningin fyrir framtíðina ætti ekki að vera hversu mikið við getum virkjað heldur hversu lítið við komumst af með að virkja.