141. löggjafarþing — 12. fundur,  26. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[19:04]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir sagði að það væri háttur minn að snúa út úr orðum manna. Hv. þingmaður á það stundum til — ég ætla ekki að segja oft — að hlusta ekki eftir því sem sagt er.

Ég sagði í ræðu minni áðan og fór einmitt yfir það að lögum hefði verið breytt. Ég vakti máls á því hvort það kynni að hafa verið skynsamlegt að gera það með þeim hætti sem gert var og hafði um það einhver orð. Ég sagði hins vegar að það gæti vel verið að svona fyrirkomulag ætti einhvern rétt á sér en það legði þá mikla ábyrgð á herðar þeim sem færu með málið vegna þess að það hefði verið unnið faglega, vegna þess að það hefði leitt til þess að orðið hefði bærilegur friður um málið fram að því og vegna þess einfaldlega að tortryggni hlyti alltaf að koma upp þegar málið væri á lokasprettinum. Og þar sem það væru hæstv. ráðherrar sem mótuðu síðan tillögurnar þá gæti komið upp mikil pólitísk tortryggni eins og komið hefur fram. Hún birtist ekki bara í ummælum okkar margra þingmanna sem höfum tekið þátt í umræðunni núna og í fyrra skiptið sem mælt var fyrir þessu máli, hún hefur líka verið að koma fram úti í samfélaginu. Síðast í samþykktum Alþýðusambandsins og Samiðnar og fleiri úr verkalýðshreyfingunni sem hafa einmitt verið að gagnrýna þetta fyrirkomulag. Það sem ég er einfaldlega að segja er að ef menn ætla að hafa þennan háttinn á verða menn að vanda sig. Það var ekki gert af því að líf ríkisstjórnarinnar lá undir og það var það sem um var að ræða, ekki um faglegt mat. Það var ekki faglegt mat sem þarna lá undir. Það lá pólitískt mat undir og líf ríkisstjórnarinnar var að veði.