141. löggjafarþing — 12. fundur,  26. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[19:42]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég ætla að leyfa mér að halda því fram — og ég þykist nokkuð viss um að hv. þm. Pétur Blöndal er mér ekki sammála — að mjög mikill munur sé á því að láta svæði vera eins og það er eða því að taka ákvörðun hér og nú um að virkja það. Tökum til dæmis viðkvæm háhitasvæði sem gríðarleg óvissa ríkir um út frá ýmsum sjónarhornum, m.a. út frá heilsufari vegna brennisteinsvetnismengunar, út frá sjálfbærni og nýtingu auðlinda, út frá niðurdælingu o.s.frv. — affallsvatn, eitrandi, mengandi efni sem koma fram. Það er að mínu mati mun afdrifaríkari ákvörðun að nýta háhitasvæði, ég tala nú ekki um röð háhitasvæða, t.d. hér í kringum höfuðborgarsvæðið þar sem svo margir landsmenn búa, en að vernda það, þ.e. að leyfa því að vera eins og það er.

Mér þætti vænt um að vita hvort hv. þingmaður er ekki sammála mér um að eðli máls samkvæmt sé verið að brjótast inn á það svæði þannig að það sé óafturkræft. Ef svæðið fær að vera eins og það er í 50 ár er alltaf hægt að taka ákvörðun um að virkja það. Það er mun erfiðara að fara til baka þegar búið er að virkja, þá er búið að leggja ýmislegt í rúst.

Varðandi þetta með óskynsamlegu ákvörðunina, ég held að varðandi stærri biðflokk eigi sjónarhorn okkar að vera: Heyrðu, við vitum kannski ekki hér og nú hvort við erum að taka skynsamlega eða óskynsamlega ákvörðun. (Forseti hringir.) Kannski vita þeir sem á eftir koma betur (Forseti hringir.) hvort um er að ræða skynsamlega ákvörðun, rétt eins og við vitum nú að það var ofboðslega skynsamleg ákvörðun að virkja ekki Gullfoss. (Forseti hringir.) Á sínum tíma gerðu menn sér ekki grein fyrir því, ekki allir að minnsta kosti. Og ég nefni Gullfoss sérstaklega vegna þess að hv. þm. Pétur Blöndal nefndi hann hér áðan.