141. löggjafarþing — 12. fundur,  26. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[19:45]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar við skoðum þá þingsályktunartillögu sem hér liggur fyrir er alveg augljóst að áherslan í orkunýtingarflokknum er ekki á vatnsaflsvirkjanir, þar eru einungis tvær virkjanir inni. Áherslan er fremur á virkjanir á háhitasvæðum og mér sýnist að einir 14 virkjunarkostir séu nefndir þar.

Nú varaði hv. þingmaður sérstaklega við áhrifum á virkjanir á háhitasvæðum. Hún sagði meira, hún sagði: Þetta er röng niðurstaða sem menn hafa komist að í þingsályktunartillögunni og nefndi í því sambandi virkjanir á Reykjanesi, án þess að tilgreina þær nákvæmlega, og virkjanir á Þeistareykjum.

Ég spyr hv. þingmann, í ljósi þess að hún hefur sagt að þetta sé röng niðurstaða: Styður hún þessa þingsályktunartillögu eða er það forsenda fyrir stuðningi hennar að gerðar verði frekari breytingar sem væntanlega taka þá fyrst og fremst til þess að setja að minnsta kosti í biðflokk virkjanir sem nú er gert ráð fyrir að séu í orkunýtingarflokki og eru þá virkjanir á háhitasvæðum? Það er mjög mikilvægt að þetta liggi hér fyrir vegna þess að hv. þingmaður kvað mjög afdráttarlaust að orði þegar hún sagði að niðurstaðan í þessari tillögu væri röng.