141. löggjafarþing — 12. fundur,  26. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[19:48]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hefði gjarnan viljað að ég þyrfti ekki að bíða spenntur eftir afstöðu hv. þingmanns til þessa máls. Ég hélt satt að segja að þingmenn hefðu almennt talað gert upp hug sinn og væru tilbúnir að láta í ljós skoðanir sínar á afgreiðslu þessa plaggs eins og það liggur fyrir.

Þetta er eitt af meginmálum ríkisstjórnarinnar og hefur auðvitað farið í gegn hjá stjórnarflokkunum. Hv. þingmaður segir að niðurstaðan sé ekki í samræmi við hennar pólitíska óskalista, ég veit það, en hún segir líka að hún þurfi að vega og mega málið út frá pólitískri stöðu þess þegar þar að kemur.

Ég vakti athygli á að ef við skoðum þetta og skoðum orkunýtingarflokkinn þá er ljóst mál hvar áherslurnar liggja. Sú pólitíska ákvörðun var tekin af tveimur hæstv. ráðherrum og samþykkt í ríkisstjórnarflokkunum að færa úr nýtingarflokki í biðflokk nokkra mikilvæga vatnsaflsvirkjunarmöguleika. Eftir standa einir 14 kostir varðandi virkjanir á háhitasvæðum. Það er því alveg ljóst mál hvar áhersla ríkisstjórnarinnar liggur í málinu. Hún liggur í því að fara fremur í virkjanir á háhitasvæðum en síður í vatnsaflsvirkjanir. Það er út af fyrir sig áhugaverð nálgun og stefnumótun.

Ég hefði óskað að hv. þingmaður talaði skýrar þegar hún segir að hér hafi verið komist að rangri niðurstöðu, ekki bara að óskalisti hv. þingmanns hafi ekki verið uppfylltur heldur hafi einfaldlega verið komist að rangri niðurstöðu. Það er dálítið mikið sagt og gefur til kynna að hv. þingmaður sé mjög óánægð með þessa áherslu ríkisstjórnarinnar á virkjanir á háhitasvæðum og telji að ekki sé hægt að komast að réttri niðurstöðu nema færa (Forseti hringir.) mjög margar virkjanir úr nýtingarflokki. Ég vil gjarnan spyrja hv. þingmann hvort hún geti ekki verið aðeins nákvæmari (Forseti hringir.) um þær virkjanir sem hún telur að eigi að vera í forgangi þegar kemur því að færa þær úr nýtingarflokki í biðflokk. (Forseti hringir.)