141. löggjafarþing — 12. fundur,  26. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[20:06]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Þó að menn hafi brugðið stundum á leik í dag er það feikilegt alvörumál sem við ræðum hér. Þetta þingmál og lögin sem samþykkt voru á fyrra þingi gætu markað tímamót í þessum efnum þannig að það er mjög mikilvægt að afstaða manna sé algjörlega á hreinu og að þekking þeirra sé líka alveg klár áður en þeir að taka afstöðu.

Í þeirri skýrslu sem hv. þingmaður ræddi er ekki flokkað í verndarflokk, biðflokk eða orkunýtingarflokk. Gefnar eru einkunnir og síðan eru þær notaðar til að raða í röð einum virkjunarkosti eða einu landsvæði, á hvorn veginn sem maður vill líta á það. Síðan var tiltekinn hópur fimm manna, fjórir faghópstjórar og verkefnisstjórinn, skipaður af ráðherrum til að útbúa drögin að þingsályktunartillögunni sem síðan var sett í umfangsmikið ferli. Þegar það var búið og athugasemdir og umsagnir lágu fyrir ákváðu ráðherrarnir að búa til þá þingsályktunartillögu sem liggur fyrir núna.

Þetta ferli er nákvæmlega samkvæmt lögum sem sköpuð voru í svo miklu samráði að það var samhljóða, ef ég man rétt, það var að minnsta kosti ekkert mótatkvæði. Það var samhljóða afgreiðsla á lögunum um rammaáætlun sem samþykkt var í fyrra. Hv. þingmaður þarf því að segja okkur: Hvað er það nákvæmlega í þessu ferli sem menn eru ósáttir við? Hvar í ósköpunum fór það út af sporinu og hvernig á svo að laga það?