141. löggjafarþing — 12. fundur,  26. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[20:08]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er ósáttur við hvernig menn lögðu mat á niðurstöður verkefnisstjórnarinnar. Hún gaf þessu einkunnir miðað við þetta sjónarmið og hitt sjónarmiðið og raðaði þessu upp. Maður gat lagt áherslu á til dæmis túrisma eða ferðamannaþjónustu og þá hefði röðin orðið þessi. Maður gat lagt áherslu bara á efnahagshlið tillögunnar, þá hefði röðin orðið allt önnur.

Það sem ég er á móti er að menn skuli setja svona mikið í biðflokk úr nýtingarflokki og að menn séu jafnvel að gera það mjög erfitt að færa virkjunarkosti úr biðflokki í nýtingarflokk vegna þess að mönnum er gert erfitt um vik að rannsaka virkjunarkosti í biðflokknum. Það eru slík sjónarmið sem mér finnst koma fram og ég mundi gjarnan vilja að menn hlustuðu meira á önnur sjónarmið.

Mér finnst vera svo mikil einstefna í náttúruvernd, til dæmis að málið eigi að fara í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis í stað þess að fara í atvinnuveganefnd þar sem Stjórnarráðið er byggt upp þannig að til dæmis Hafrannsóknastofnun heyrir undir sjávarútvegsráðuneytið en ekki undir auðlindaráðuneytið þó að hún rannsaki auðlindir. Orkustofnun heyrir undir iðnaðarráðuneytið þó að hún rannsaki orkuauðlindir. (Gripið fram í.) Þarna kemur fram það sjónarmið sem ég var að tala um. Menn eru ekki rökréttir, þetta er barátta á milli sjónarmiða og þetta hefur greinilega orðið ofan á hjá stjórnarflokkunum með skipan Stjórnarráðsins. Það eru því einhver hrossakaup í gangi varðandi auðlindaráðuneytið sem er hjá umhverfisráðuneytinu upp á punt og verður athyglisvert að sjá hvert málinu verður vísað endanlega þegar kemur að því að vísa því til nefndar.