141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

jafnréttismál.

[10:46]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Í fyrravetur úrskurðaði kærunefnd jafnréttismála forsætisráðherra brotlegan gagnvart jafnréttislögum og það undirstrikaði síðan héraðsdómur rækilega í vor. Ég verð að segja að ég hafði ekki ímyndunarafl í það að þegar sumarið yrði liðið hefðum við upplifað það að ráðherra ríkisstjórnar vinstri manna sem kennir sig meðal annars við jafnrétti hefði enn og aftur gerst sekur um brot á jafnréttislögum. Nú var það hæstv. ráðherra Ögmundur Jónasson þegar hann ákvað að skipa karl í staðinn fyrir konu í embætti sýslumanns á Húsavík og kærunefndin hefur sagt að hann hafi gerst brotlegur við jafnréttislög.

Það má segja að framganga vinstri stjórnarinnar sem kennir sig við jafnrétti sé ekki beint jafnréttisbaráttunni sem slíkri til framdráttar. Því spyr ég hæstv. forsætisráðherra sem ég veit að í gegnum tíðina hefur samt látið sig jafnréttismálin varða hvort hún telji það heppilegt fyrir jafnréttisbaráttuna að ráðherrar í ríkisstjórn ítreki brot á jafnréttislögum, hvort hún sé sammála meðal annars Femínistafélaginu um að það sé ólíðandi að ráðherrar í ríkisstjórn Íslands brjóti jafnréttislög og ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra hvort hún sé sammála jafnréttisstýru um að hæstv. innanríkisráðherra hafi einfaldlega gefið kærunefndinni langt nef með viðbrögðum sínum út af broti sínu.

Síðan í lokin vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort hún telji í ljósi þessara ítrekuðu brota ráðherra ríkisstjórnar Íslands á jafnréttislögum rétt að beita sér fyrir breytingum á jafnréttislögum.