141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:07]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Þinginu er nokkur vandi á höndum. Hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson er ósáttur við tillögu hæstv. umhverfisráðherra um hvert skuli vísa máli sem hæstv. umhverfisráðherra flytur. Þingsköpin veita því miður ekki mikla leiðbeiningu um þetta því að í 13. gr. stendur um atvinnuveganefnd að hún eigi meðal annars að fjalla um „nýtingu auðlinda á grundvelli rannsókna og ráðgjafar“, með leyfi forseta, en hins vegar um umhverfis- og samgöngunefnd — ef ég fengi þögn í salinn væri það ákaflega æskilegt — að hún skuli fjalla um „rannsóknir, ráðgjöf, verndun og sjálfbærni á sviði auðlindamála almennt“.

Ég tel einboðið að hlíta þeirri tillögu sem hæstv. umhverfisráðherra gerði í þessu efni. Fyrir því eru ýmis rök. Mér þykir miður sú vanvirða og það vantraust sem kemur fram í tillögu Gunnars Braga Sveinssonar (Forseti hringir.) gagnvart umhverfis- og samgöngunefnd og þó einkum þeim ágætu félögum úr stjórnarandstöðuflokkunum þar, (Forseti hringir.) þeim hv. þm. Birgi Ármannssyni, hv. þm. Árna Johnsen og (Forseti hringir.) hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni.