141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:12]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við skulum setja þetta ágreiningsefni í eðlilegt sögulegt samhengi. Við gerðum breytingar á þingsköpum Alþingis, þær breytingar tóku gildi haustið 2011. Á grundvelli þeirra ákváðum við fyrr á þessu ári að vísa þessu máli til atvinnuveganefndar Alþingis. Það blasti líka við, að mínum dómi þótt ég viti að ekki hafi allir verið sammála um það, þannig var það þó, að á bak við þær breytingar sem gerðar voru á þingsköpunum á sínum tíma lá pólitískt samkomulag og skilningur á þessum málum.

Nú er allt í einu komin upp krafa um að þetta mál fari ekki til atvinnuveganefndar heldur til annarrar nefndar. Þá spyr ég: Var eitthvað að vinnu atvinnuveganefndar eða aðfinnsluvert í starfi atvinnuveganefndar? Var eitthvað að stjórn formanns atvinnuveganefndar í þessu máli? Er eitthvað sem kallar á það að þessu fyrirkomulagi verði breytt frá þeirri ákvörðun sem við tókum fyrr á þessu ári?

Það er líka sagt að (Forseti hringir.) breytingar hafi orðið í Stjórnarráðinu. Þingsköp Alþingis eiga ekki að taka tillit til þess, það er ekki þannig. (Forseti hringir.) Þótt hæstv. umhverfisráðherra mæli fyrir málinu á það ekki sjálfkrafa að fara (Forseti hringir.) til umhverfisnefndar. Það er ekki þannig, það er misskilningur ef menn halda það.