141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:18]
Horfa

Þór Saari (Hr) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir hrakti heim til föðurhúsanna málflutning sjálfstæðismanna í þessu máli um brot á þingsköpum. Þetta mál er ekki síður, og jafnvel miklu frekar, umhverfismál heldur en atvinnumál. Í orkunýtingarflokki er til dæmis verið að tala um sjö jarðvarmavirkjanir á Reykjanesi hér rétt utan við höfuðborgina.

Atvinnuveganefnd var á ferð um Hellisheiðarvirkjun fyrir rúmri viku. Sú virkjun dælir 25 þús. tonnum af brennisteinsvetni út í andrúmsloftið á hverju einasta ári. Við erum að vinna að því að koma því ofan í jörðina aftur, segja þeir. Og hvernig gengur það? Jú, við höfum komið 24 tonnum niður í jörðina aftur, innan við 1/1000. Og á svo að bæta í enn frekar án þess að umhverfismálin hafi vægi í þessari áætlun? Það er algerlega fráleitt að ætla sér að virkja eingöngu út á einhver atvinnumál. Það gengur ekki upp.