141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:21]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Vegna þess álitamáls sem hér er uppi vil ég segja að þingsköpin veita kannski ekki fullkomna leiðsögn í þessu máli. Það er hægt að lesa þau þannig að málið gæti í sjálfu sér farið til beggja nefnda, en þá er gott að grípa til lögskýringarinnar sem er nefndarálitið frá þingskapanefnd þegar þetta mál var til afgreiðslu. Þar segir, með leyfi forseta:

„Frumvarpið gerir ráð fyrir að um auðlindamál, þ.e. rannsóknir, nýtingarstefnu, ráðgjöf og verndun, eigi að fjalla í umhverfis- og samgöngunefnd en um nýtingu auðlinda á grundvelli rannsókna og ráðgjafar eigi að fjalla í atvinnuvega- og viðskiptanefnd jafnvel þó að auðlindamál séu ekki sérstaklega tilgreind sem verkefni nefndarinnar í frumvarpinu …“ Svo segir: „Það var að lokum niðurstaða nefndarinnar að tiltaka auðlindamál […] sérstaklega sem verkefni atvinnuveganefndar en auðlindamál (rannsóknir, ráðgjöf, verndun og sjálfbærni á sviði auðlindamála almennt) sem verkefni umhverfis- og samgöngunefndar. Í tengslum við það að skil á milli verkefna nefnda séu oft ekki alveg skýr tekur nefndin sérstaklega fram að það er að endingu þingið sjálft sem ákveður til hvaða nefndar máli er vísað.“

Þetta er lögskýringin sem fylgir þessu máli og þá mun (Forseti hringir.) Alþingi að sjálfsögðu, þessi salur hér, taka endanlega afstöðu í málinu.