141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:24]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Í meðförum þingmannanefndarinnar sem fjallaði um það hvernig hægt væri að styrkja sjálfstæði þingsins var meðal annars bent á að breyta þyrfti þingsköpum og taka þyrfti á því ofurvaldi sem framkvæmdarvaldið hefur yfir þinginu. Í meðförum þingskapanefndarinnar var það einmitt einn tilgangur — og kemur fram í lögskýringargögnum þar og umræðum sem þar áttu sér stað og ég sat nokkra fundi í þeirri nefnd — að rjúfa þau tengsl að ráðherra og nefnd væru beintengd, eins og til að mynda í þessu tilviki, að hæstv. umhverfisráðherra vísaði sínum málum í hv. umhverfisnefnd. Það var akkúrat tilgangurinn að sjálfstæði þingsins væri með þeim hætti.

Atvinnuveganefnd fór með þetta mál í vor og gerði það býsna vel. Atvinnuveganefnd fór í ferð um daginn að skoða meðal annars ýmsa kosti í rammaáætlun. (Forseti hringir.) Ég veit ekki til þess að umhverfisnefnd hafi gert það. Við áttum að vinna í sumar. (Forseti hringir.) Þetta eru pólitísk hrossakaup sem koma á síðustu stundu og snúast um það (Forseti hringir.) að framkvæmdarvaldið ætlar að halda áfram að ráða yfir þinginu.