141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

3. mál
[11:57]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það kemur ekki á óvart miðað við ummæli hv. þingmanns í útvarpsþættinum Harmageddon um daginn að frumvarp hans og samflokksmanna hans vísar málinu öllu burt frá náttúruvernd og burt frá samráði við almenning. Það þarf að ræða ítarlegar. (JónG: Útúrsnúningur. …)

Forseti. Að vísu hefur hv. þm. Jón Gunnarsson ákveðið skemmtigildi hér í salnum en þetta þus og fjas og taut í honum er að verða heldur leiðinlegt, sérstaklega vegna þess að við sem komnir erum á efri ár erum heyrnardaufir, við ráðum ekki við að nema þessa speki sem út úr honum kemur. (JónG: … frekar en …)

Það sem ég ætlaði að koma á framfæri á þeim 6 mínútum og 43 sekúndum sem ég á eftir í ræðustólnum, þegar búið er að draga þann tíma frá sem Jón Gunnarsson notaði sem ræðutíma úr sal, eru tvær spurningar og ein tillaga.

Spurningarnar fjalla um þessa skrýtnu hluti í frumvarpinu. Þar er gert ráð fyrir því að öll völd séu sett til verkefnisstjórnarinnar. Ekkert gerist frá því að verkefnisstjórnin tekur ákvörðun, sú sama og skilaði af sér ágætri, faglegri vinnu, röðun virkjunarkosta og landsvæða, náttúrusvæða, þangað til kemur að þinginu.

Mig langar að spyrja hvort það sé í samræmi við það faglega hlutverk sem verkefnisstjórnin hefur að þar sitji hv. alþingismaður Unnur Brá Konráðsdóttir ásamt fimm öðrum fulltrúum frá ráðherrum í ríkisstjórn.

Í öðru lagi langar mig að spyrja hv. þm. Bjarna Benediktsson, sem tilviljun ræður því að er nafni lögspekings fyrr í Íslandssögunni, hvaða fordæmi séu fyrir því að fluttar eru tillögur á þinginu sem flutningsmaðurinn ber ekki sjálfur ábyrgð á, þar sem flutningsmanninum er skipað að flytja tillögur (Forseti hringir.) annars fólks. Hvaða fordæmi eru fyrir því í þingsögunni og í lögbókinni?