141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

3. mál
[12:03]
Horfa

Flm. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvaða gagn er að því að reyna að eiga orðastað við hv. þingmann því að hann virðist ekki geta gert það upp við sig hvort hann hefur komist að þeirri niðurstöðu að verkefnisstjórnin hafi verið ófagleg vegna þess að einn hv. þingmaður situr í nefndinni eða hvort honum líst svo vel á tillöguna að þetta sé eina hindrunin fyrir því að hann geti sætt sig við hana.

Er hv. þingmaður ósammála niðurstöðum verkefnisstjórnarinnar vegna setu hv. þingmanns? Ef hann heldur því ekki fram, er hann þá sáttur við að þar sé hægt að vinna faglega vinnu og fer þess vegna ekki fram á að hv. þingmaður víki?

Ef hv. þm. Mörður Árnason vill að hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir víki úr nefndinni af þessum ástæðum sýnist mér að hv. þingmaður láti þá í það skína að hann sé hrifinn af þessari tillögu. Ég fagna því ef hv. þm. Mörður Árnason sér ljósið núna og sér fram á að geta stutt hugmyndina um að kalla verkefnisstjórnina saman að nýju að því skilyrði uppfylltu að enginn þingmaður sitji þar. Ég verð bara að líta þannig á að það sé það sem hv. þingmaður hafi átt við.

Varðandi það hver eigi að bera ábyrgð á þingmálinu tel ég að það verði tiltölulega létt verk fyrir hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra að bera ábyrgð á því, sérstaklega þegar lög fyrirskrifa með hvaða hætti undirbúa eigi þingmálið. (Gripið fram í.) Þetta er nokkuð sem við þurfum að koma okkur saman um hvort við eigum að hafa sem gildandi lög eða ekki. (Gripið fram í.) Það er einfaldlega þannig. (Gripið fram í.)