141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

3. mál
[12:13]
Horfa

Flm. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ef við færum þá leið sem hv. þm. Birgitta Jónsdóttir reifaði fyrr í dag við atkvæðagreiðslu um þingmál ráðherrans, að láta náttúruna ávallt njóta vafans, mundum við fljótt komast að niðurstöðu um það hvort eitthvað yrði gert eða ekki. Við vitum að þá yrði aldrei neitt gert. Ef sérhvert inngrip í náttúruna ætti að leiða til þess að náttúran nyti ávallt vafans yrði aldrei neitt gert.

Við erum að reyna að finna jafnvægi á milli nýtingar og verndunar. Hér er spurt: Var það ekki faglegt hjá ráðherranum að senda málið til umsagnar og taka svo tillit til þeirra umsagna sem bárust í því lögboðna ferli? Það er ábyggilega hægt að segja að það hafi verið faglegt, en var efnislega niðurstaðan á rökum reist? Það er annað álitamál. Komu fram sjónarmið sem ekki höfðu komið á borð verkefnisstjórnarinnar? Voru þetta meira eða minna sömu álitaefnin og verkefnisstjórnin hafði áður tekið afstöðu til? Ég tel að að uppistöðu til hafi þannig verið í pottinn búið.

Ég ætla hins vegar að taka fram, af því við vitum að neðri hluti Þjórsár er eitt af stóru deilumálunum hér og hann er allur tekinn úr nýtingarflokki í þingskjali ráðherrans, að ég tel að það kunni að hafa komið fram einhver sjónarmið þar, kannski sérstaklega varðandi Urriðafoss, sem hafi verið ástæða til að taka til frekari skoðunar. En að það hafi komið fram slíkur fjöldi athugasemda sem verkefnisstjórnin hafi einfaldlega ekki fengið á sitt borð eða horft fram hjá, að allur neðri hluti Þjórsár, allir þrír virkjunarkostirnir, (Forseti hringir.) eigi með réttu að færast í biðflokk finnst mér býsna langt gengið.