141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

3. mál
[12:15]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér tillögu sjálfstæðismanna um breytingu á lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun. Ég vil þakka hv. framsögumanni fyrir yfirvegaða framsögu því hér er gríðarlega mikilvægt málefni til umfjöllunar. Ég vil í sjálfu sér fagna þeim tón sem kemur fram í framsögunni, fyrst og fremst sem varðar þann vilja að virða faglega ferla og stefna að sátt í málinu. Það hefur því miður ekki endilega verið sá tónn sem hefur verið uppi í umræðunni, heldur kannski frekar tónn sem hefur einkennst af því að vilja viðhalda tortryggni en að byggja upp traust, frekar að hafa uppi hótanir og einhvers konar yfirlýsingar um hvað muni gerast ef svo fer fram sem horfir að þessir sex kostir verði settir úr nýtingu í bið, að þar með séu boðuð ný pólitísk plögg, þegar og ef Sjálfstæðisflokkurinn nær völdum, sem muni endurspegla allt aðra sýn. Ég fagna því að tónninn er hófstilltari í máli hv. þingmanns en sá sem kom ítrekað fram í bæði ræðum og andsvörum þingmanna Sjálfstæðisflokksins í gær.

Mér finnst mikilvægt, í ljósi þess að hér erum við að tala um frumvarp til laga um breytingu á lögum, að gæta að því að við munum eftir því að þegar atkvæðagreiðslan fór fram í maí 2011 um núgildandi lög var enginn í þingsalnum sem andmælti niðurstöðunni. Þingmenn sem voru viðstaddir atkvæðagreiðsluna og þar með taldir þingmenn Sjálfstæðisflokksins greiddu allir atkvæði með lögunum sem hér hefur verið framfylgt í einu og öllu. Þetta er lykilatriði. Þegar niðurstöðurnar eru sendar í opið umsagnarferli og ráðherrarnir taka tillit til þeirra, rökstyðja þær breytingar sem gerðar eru, er um að ræða fullkomið samræmi við gildandi lög í landinu sem Sjálfstæðisflokkurinn hreyfði ekki andmælum við hér í salnum.

Og já, breytingarnar voru faglegar eins og kom fram í máli hv. þingmanns og eru kirfilega rökstuddar í þingsályktunartillögunni. Mér finnst líka umhugsunarefni að hv. þingmaður tekur sérstaklega fram einn efnisþátt sem nauðsynlegt er að taka tillit til, en það er fiskigengd í neðri hluta Þjórsár. Mér finnst ánægjulegt að það skuli koma fram í máli hv. þingmanns þótt hann hafi efasemdir um að það eigi við fleiri virkjunarkosti en neðri hluta Þjórsár. Hins vegar er þarna um eitt vatnasvið að ræða. Í varúðarskyni töldum við ráðherrarnir rétt að setja það allt til skoðunar. Það er umdeilanlegt en við töldum að varúðin þyrfti þar að gilda samkvæmt því umboði sem við höfðum frá Alþingi. (Gripið fram í.)

Aðeins um tiltekna efnisþætti frumvarpsins. Þeir valda mér vonbrigðum vegna þess að þeir eru allir á einn veg, þann veg að þyngja röksemdir í þágu nýtingar og draga úr vægi röksemda í þágu verndar.

Ég verð að segja, virðulegur forseti, að það veldur mér, sem er áhugakona um stjórnmál á líðandi stund og hef verið raunar lengi, áhyggjum að náttúruverndarsjónarmið skuli ekki eiga málsvara meðal kjörinna fulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Sjálfstæðisflokkurinn er orðinn í þessum málaflokki mjög afturhaldssinnaður og hægri sinnaður flokkur sem endurspeglar að minni reynslu í raun alls ekki fylgi hans. Það er fjöldinn allur af stuðningsmönnum Sjálfstæðisflokksins um allt land sem hefur komið að máli við mig allt frá vorinu 2009, þegar ég settist í embætti umhverfisráðherra, og beðið mig sérstaklega um að gæta að náttúruvernd í landinu. Ég sakna þess að heyra ekki þau sjónarmið meðal kjörinna fulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem ávallt halla sér á hinar röksemdirnar og það endurspeglast því miður í því þingmáli sem hér er mælt fyrir.

Í fyrsta lagi er lagt til að felldur sé brott sá texti sem gerir ráð fyrir því að þau svæði sem núna njóta verndar falli utan áætlunarinnar, þ.e. sjálfstæðismenn vilja að landsvæði sem núna njóta friðlýsingar, friðlýst svæði og svæði innan þjóðgarða, komi öll til álita sem virkjunarsvæði þrátt fyrir ákvarðanir stjórnvalda, tilvist náttúruverndaráætlunar og náttúruverndarlaga á fyrri tímum um mikilvægi viðkomandi svæða. Að aftur eigi að tortryggja eða efast um þau svæði og fella inn í skoðun á forsendum nýtingar eru vonbrigði númer eitt.

Númer tvö eru áherslur sem varða biðflokkinn þar sem gert er ráð fyrir að ákafar megi ganga á þau svæði í rannsóknarskyni, að þar megi veita leyfi sem tengjast orkurannsóknum og stunda orkurannsóknir. Í núverandi lögum er gert ráð fyrir að aðeins megi fara inn á þessi svæði þannig að yfirborð raskist ekki og náttúruverndarhagsmunum sé ekki ógnað. Þarna er líka verið að stíga skref frá náttúruvernd og í þágu nýtingar.

Í frumvarpinu eru undirliggjandi ákveðin sjónarmið og ákveðin meginrök sem eru þau að ferlið hafi með einhverju móti ekki verið faglegt heldur pólitískt og tillögur verkefnisstjórnarinnar hafi ekki skilað sér í endanlegri tillögu. Þetta er nokkuð glúrin framsetning sjálfstæðismanna í ljósi umræðunnar og hvernig hún hefur þróast og þeirrar staðreyndar að þeir hafa haldið fram þessum tortryggnisröddum alveg frá því málið var borið upp og lagt hér fram.

Virðulegur forseti. Hér þurfum við að halda því til haga að rammaáætlun er ekkert einstök í sinni röð hvað varðar það að ráðherra beri ábyrgð á stefnumótun í málinu. Ráðherra ber ábyrgð á stefnumótun þegar um er að ræða fjöldann allan af áætlunum og öðrum stefnuplöggum. Hvað eigum við þá að segja með samgönguáætlun? Hvað eigum við þá að segja með fjarskiptaáætlun eða aðrar þær áætlanir sem ráðherrum er falið að bera undir þingið og bera ábyrgð á í því umboði sem ráðherra hefur?

Það mætti líka velta fyrir sér, eins og hér hefur raunar verið gert í andsvörum, hvort ætti yfir höfuð nokkuð að leggja þessa áætlun fram á Alþingi. Ættu hv. þingmenn ekki að stíga skrefið til fulls og segja sem svo: Eigum við ekki bara að útvista þessum ákvörðunum til annarra aðila en þeirra sem hafa til þess lýðræðislegt umboð í gegnum lýðræðislegar kosningar í lýðræðisríki? Eigum við ekki bara að koma þessu öllu saman út úr þeim ferlum sem hugsanlega hafi í för með sér eitthvert mat? Pólitík snýst um að leggja mat á forsendur og leggja síðan tillögur sínar fram í umræðu í þeirri ágætu málstofu sem hér er og til atkvæða. Það er það sem verið er að gera. Hvert einasta skref í þessu máli er hugsað, metið og faglega rökstutt. Það er ekkert ógagnsætt í ferlinu. Það kemur allt mjög skýrt og greinilega fram.

Það má líka halda því til haga sem er afar mikilvægur punktur að í engum tilvikum í þeim breytingum sem ráðherrarnir gera áður en tillagan er lögð fram til þinglegrar meðferðar er verið að taka endanlega afstöðu til virkjunarkosts. Í engum tilvikum. Af hverju er það ekki gert? Af hverju tökum við ekki endanlega afstöðu til einhvers virkjunarkosts fyrst við höfum hugsanlega til þess pólitískt afl í þinginu? Af hverju gerum við það þá ekki? Það er vegna þess að við erum bundin af faglegu ferli. Það er vegna þess að við erum bundin af þeim lögum sem við vinnum samkvæmt. Okkur ber að vinna samkvæmt þeim. Og okkur ber þess vegna að rökstyðja allar þær breytingar sem við gerum á grundvelli samráðs við almenning. Og það gerum við.

Það veldur mér áhyggjum að tillagan ber í sér, eins og ég fór yfir, fyrst og fremst skref í áttina frá náttúruvernd í áttina að nýtingu, og í öðru lagi sú staðreynd að breytingarnar snúa að skertu samráði við almenning, að draga úr samráði við almenning. Því miður kemur það ekki á óvart því sá tónn var aldeilis hér undir þegar verið var að ræða Árósasamninginn á fyrri stigum og sérstaklega á árum áður þar sem sjálfstæðismenn hafa því miður iðulega tekið sér þá stöðu að vilja forðast opið samráð og draga úr því með öllu móti. Ég hafði væntingar til þess, vegna þess að hér náðist sátt þegar var verið að innleiða Árósasamninginn í íslenskan rétt, meðal annars við sjálfstæðismenn, að það ríkti raunverulegur, djúpur og yfirvegaður skilningur á mikilvægi þess samráðs, skilningur á því að gefinn væri langur tími til að almenningur og félagasamtök gætu komið fram með áhyggjuefni sín og áherslumál.

Þær tólf vikur sem hér voru gefnar voru einmitt til þess. Á þeim tíma kom fjöldinn allur af athugasemdum og áhyggjuefnum. Margar athugasemdirnar höfðu komið fram á fyrri stigum eins og hér hefur verið lýst, en sumar þeirra voru þannig að við töldum að þær hefðu ekki verið til umfjöllunar á fyrri stigum. Það voru tvenns konar rök, annars vegar þau sem lutu að laxa- og urriðagengd í Þjórsá og hins vegar áhrifum grenndarsvæðis þjóðgarðs Vatnajökuls vegna þess að þar var um að ræða Skrokköldu- og Hágönguvirkjanir. Þar mundi virkjunarinngrip klárlega hafa áhrif á víðernaupplifun og sérstaklega í nágrenni við þjóðgarða. Þjóðgarðarnir höfðu ekki verið ræddir sérstaklega, þess vegna töldum við í varúðarskyni rétt að gera þetta.

Það má geta þess að varúðarreglan er ein þeirra meginreglna umhverfisréttarins sem ég tel gríðarlega mikilvægt að við leiðum í íslenskan rétt, einmitt til þess að það sé tryggt, kannski þvert á það sem hv. þm. Bjarni Benediktsson sagði áðan, að náttúran njóti vafans.

Viðfangsefnið er að eyða vafanum í skoðunarferlinu. Þess vegna eigum við mat á umhverfisáhrifum og þess vegna eigum við alla þá skoðunarferla sem stjórnvöldum ber að fara eftir til að fækka álitamálum, til að svara spurningum svo að vafinn sé ekki lengur fyrir hendi og við getum óhikað farið í framkvæmdir eða hvað það nú er, hvers konar inngrip sem það er, án þess að náttúran gjaldi fyrir það. Það er hugsunin í varúðarreglunni og hugsunin sem endurspeglast í reglunni um að náttúran njóti alltaf vafans. En vafinn þarf þá að vera fyrir hendi. Þess vegna snerust breytingarnar sem við gerðum á þingsályktunartillögunni bara um það að fækka spurningarmerkjum og eyða vafanum til þess að næsta verkefnisstjórn, svo við höldum því til haga, geti gert nýja tillögu til ráðherra sem ber síðan þá rökstuddu tillögu til þingsins.

Virðulegur forseti. Í stuttu máli tel ég vera jákvæðan tón í framsögu hv. þingmanns sem snýst um að virða faglega ferla og viljann til jafnvægis í málinu, en lýsi áhyggjum mínum yfir því að það skuli vera á vogarskálar nýtingar á kostnað náttúruverndar og á vogarskálar þröngra ráðagerða á kostnað samráðs við almenning.