141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

3. mál
[12:38]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt sem kemur fram í máli hv. þingmanns að vinnunni vatt fram á sama tíma og verið var að vinna lagalegt umhverfi utan um það hvernig vinnan ætti að fara fram og hvernig henni ætti að ljúka. Það var sannarlega áskorun fyrir verkefnisstjórnina og ég vil nota tækifærið til að þakka verkefnisstjórninni afar mikilvæga vinnu. Það var mikil áskorun fyrir hana að bíða átekta á meðan þingið var að klára sína nálgun. En niðurstaðan varð sem sé sú sem raun bar vitni og það var í fullri einlægni sem þáverandi iðnaðarráðherra í samráði við mig tók þá ákvörðun að þingsályktunartillagan yrði útbúin af hinum fjórum formönnum faghópanna, einmitt til að tryggja eftir fremsta megni að fagmennskunni yrði haldið til haga alla leið. Það var markmiðið.

Ég vil loks segja við hv. þingmann að ég tel að grunntónninn í orðum hennar í þessum andsvörum sé mikilvægur, vegna þess að ég held að við gætum nálgast sátt eða að minnsta kosti einhvers konar jafnvægi í þeirri hugsun að við þurfum að gæta að trúverðugleika og fagmennsku og við þurfum að gæta að því að spóla ekki upp tortryggni í þessu máli. Það er vegferð sem ég hef trú á að við getum lokið hér í þingsal. En til þess þurfa að liggja heilindi til grundvallar og það gildir á alla bóga.

Þá finnst mér líka mikilvægt að horft sé til þess að á öllu ferlinu sem við höfum stigið hingað til (Forseti hringir.) hefur verið gætt að lögbundnu hlutverki okkar. Við höfum gætt að því að fara að lögum á hverjum einasta tímapunkti í ferlinu.