141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

3. mál
[12:44]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég fór í andsvar við hæstv. ráðherra vegna þess að hún taldi upp ýmis atriði sem hún hafði áhyggjur af í fari þingmanna Sjálfstæðisflokksins. Ég andmælti því og sagði að hæstv. ráðherra þyrfti ekki að hafa áhyggjur af Sjálfstæðisflokknum í þessum málum. Ég gæti haft áhyggjur af Vinstri grænum. Ég hef það ekki af því ég geri ráð fyrir að þeir mæti bara kjósendum sínum sem spyrji þá um þau kosningasvik sem Vinstri grænir hafa stundað.

Varðandi að ráðherrarnir beri ábyrgð, þá er rammaáætlun málamiðlun og henni er ætlað að vera málamiðlun milli þess að virkja og skapa vinnu. Það eru tveir pólar sem við stöndum frammi fyrir; eigum við að leggja áherslu á að skapa atvinnu og virkja villt og galið eða eigum við að hætta að virkja og hugsa bara um náttúruna? Þetta eru tveir pólar. Þjóðin er ekkert sammála um þetta. Margir vilja fá atvinnu, sérstaklega þeir sem eru að flýja land, þeir sem geta ekki borgað af lánunum sínum og þeir sem eru í standandi vandræðum vegna þess að þeir eru atvinnulausir. Það er nefnilega líka að gerast, herra forseti, að fjöldi Íslendinga er atvinnulaus og getur ekki borgað, kemst ekki af og getur ekki borgað síhækkandi skatta hæstv. ríkisstjórnar. Á móti þessu stendur að virkja ekki neitt. Þessir tveir pólar ná samkomulagi í rammaáætlun. Síðan kemur ráðherra og beitir ráðherravaldi sínu og breytir því samkomulagi. Það er það sem ég upplifi og margir fleiri.

Þess vegna vildi ég spyrja hæstv. ráðherra hvort hún meti meira náttúruna eða fólkið í landinu, náttúruvernd eða atvinnu.

Það getur vel verið að það sé rétt að náttúran eigi alltaf að njóta vafans og fólkið eigi að flýja úr landi.