141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

3. mál
[14:07]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég held að það sé mjög mikilvægt að dýpka umræðuna um hvað felst í þessu ferli og hvernig við sjáum það fyrir okkur til lengri tíma og hvað við meinum með faglegum vinnubrögðum og vísindalegri vinnu ef fólk vill skilja tilfinningar alveg frá. Fjöldi umsagna hefur borist frá málsmetandi fólki sem bendir einmitt á að afgerandi upplýsingar vanti á tilteknum sviðum og þess vegna sé betri ákvörðun vís síðar þegar rannsóknir hafa leitt okkur betur á leið.

Við höfum náttúrlega rætt hér, því miður innan þröngs tímaramma, alla þá óvissu sem fylgir virkjunum á háhitasvæðum sem er gríðarlega mikil, og allir eru sammála um það og enginn getur afneitað því. Hverju tapa menn með því að bíða þar og vísa þeirri ákvörðun inn í framtíðina?

Annar þáttur sem hefur ekki verið mikið nefndur en ætti að vera það — það er hægt er að benda á marga þætti þar sem rannsóknir vantar enn þá — er sá þáttur sem er ein stoðin undir hugmyndinni um sjálfbæra þróun og sjálfbærni, þ.e. samfélagsáhrif. Þar verður að segjast eins og er að vinna verkefnisstjórnar í faghópi III sem hafði þetta á sinni könnu stóð ekki undir væntingum. Það eru mikil göt í skilningi okkar á samfélagslegum og hagrænum áhrifum. Mig langar að vita hvort hv. þingmaður sé sammála mér um að þarna séu stór göt og hvað henni finnst að gera eigi í því.