141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

3. mál
[14:12]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun sem allir hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins flytja og ég þar á meðal. Ég er mjög ánægður með þetta frumvarp og stoltur af því og tel það gott framlag í umhverfisvernd.

Ég man langt aftur og alla tíð hafa verið miklar deilur um virkjanir, hverja einustu. Það hefur komið fram fólk sem segir: Við verðum að virkja, við verðum að nýta auðlindir þjóðarinnar til að byggja upp gott og sterkt velferðarkerfi, til að skapa atvinnu og byggja upp sterkt efnahagslíf. Svo koma aðrir og segja: Við þurfum að vernda náttúruna og gæta þess að skemma ekki eitthvað sem börnin okkar munu erfa o.s.frv. Þessar deilur standa endalaust og kosta mjög mikla orku.

Þess vegna varð ég mjög ánægður þegar Sjálfstæðisflokkurinn hafði frumkvæði að því að koma að rammaáætlun, gera áætlun um hvaða kosti við ætlum að virkja, hvaða kosti við ætlum að setja í verndarflokk, kosti sem allir eru sammála um að ekki eigi að virkja, t.d. Gullfoss, Geysi og ekki má ég gleyma Dettifossi. Í áætluninni á að koma fram hvað við ætlum að virkja og hvað á að vera óráðið, þó sem minnst óráðið þannig að ekki skapist deilur um það.

Í gang fór mjög viðamikil og fagleg vinna og hún hefur verið ótrúlega fagleg. Tekið er tillit til alls konar sjónarmiða, jafnvel fegurðar, sem er mjög matskennt. Það er tekið tillit til atvinnuvega og atvinnumála o.s.frv. Þetta er alltaf slagurinn á milli þess að búa til atvinnu og vernda náttúruna. Mannkynið hefur undirokað náttúruna mjög víða og það illilega sums staðar. Ég hef séð umhverfisslys í útlöndum sem eru öldungis skelfileg. Í dag er einmitt, herra forseti, verið að byggja álver um allan heim, sérstaklega í Kína, þar sem álið í þeim verksmiðjum er rafgreint með rafmagni frá orkuverum sem brenna kolum og olíu. Það hefur í för með sér gífurlega mengun fyrir mannkynið og hitnun jarðar. Mér finnst því ákveðin skylda Íslendinga gagnvart mannkyninu að nýta orkuauðlindir okkar eins mikið og við teljum að sé hóflegt gagnvart náttúrunni. Þess vegna er þessi rammaáætlun svo mikilvæg fyrir sátt í þjóðfélaginu.

Nú gerist það að þegar málið kemur inn í ríkisstjórn kemur ráðherrann að málinu og hann ætlar að beita ráðherravaldi sínu og breyta þessari sátt. Um leið og hann hnikar sáttinni gefur hann færi á því að fólk sem er öndvert hugsandi og gæti komist í ríkisstjórn sem ráðherrar fari að breyta því til baka. Öll lög sem Alþingi hefur sett getur Alþingi afnumið, öll nema stjórnarskrána. Þetta finnst mér gefa hættulegt fordæmi og jafnvel mjög skaðlegt fyrir þá sem vilja vernda náttúruna. Þetta er ákveðið ofbeldi minni hlutans, því að það er talað um að deilur séu innan ríkisstjórnarinnar, innan stjórnarflokkanna en þar innan borðs er þó ekki nema rúmlega helmingur Alþingis. Það er því greinilegt að minni hluti Alþingis er að kúga meiri hlutann til að ná fram sínum sjónarmiðum. Þetta slær náttúrlega til baka þegar stjórnarskipti verða og nýtt fólk kemur inn.

Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu en hér hefur nokkuð verið rætt um víðerni. Mér finnst það alltaf jafnfáránleg umræða. Ósnortin víðerni, hvers lags er nú það? Eigum við þá ekki bara að banna ferðamenn? Hver einasti maður sem stígur fæti sínum á ósnortið víðerni gerir að verkum að það er ekki lengur ósnortið. Um leið og fótsporið er komið er víðernið ekki lengur ósnortið. Menn geta ekki farið yfir svæði, ósnortin víðerni, nema helst í flugvél eða loftbelg. Loftbelgir eru ekki kannski heppilegur ferðamáti á Íslandi vegna sviptivinda og annars slíks en flugvélar menga. Það er í raun mótsögn í sjálfu sér að tala um ósnortin víðerni, enda tel ég, herra forseti, að hvergi á Íslandi sé að finna ósnortin víðerni, ekki lengur. Ef einhver getur bent mér á þau, einhvern ferkílómetra sem ekki hefur verið klifinn af fjallgöngumönnum eða ferðamenn hafa trítlað í gegnum í löngum röðum í skrautlegum klæðnaði — sem er líka sjónmengun — þætti mér vænt um að vita hvar hann er, því að ég ætla þá að fara inn á hann og gera hann ekki lengur ósnortinn. Þetta er nefnilega mótsögn í sjálfu sér.

Mér finnst að fólk ætti að skoða hvað ferðaþjónustan mengar mikið. Ég hef grun um að af hverri vinnustund sem ferðaþjónustan skapar, og hún skapar vissulega mikla atvinnu, verði meiri mengun, sérstaklega sjónmengun og alls konar önnur mengun, en af vinnustund í álveri. Þetta þurfa menn að skoða. Það er svo mikið af innantómum slagorðum í þessari umræðu að mér finnst að menn þurfi að tala um þetta vitrænt.

Varðandi afstöðu Sjálfstæðisflokksins til umhverfismála held ég að flestir kjósendur Sjálfstæðisflokksins, þeir sem eru í Sjálfstæðisflokknum og þingmenn hans og sveitarstjórnarmenn, séu mjög áfram um umhverfisvernd. Menn eru löngu búnir að átta sig á því að ganga þarf af nærgætni um náttúruna, gæta þess hvernig hún er meðhöndluð. Það þarf að finna hinn fína milliveg á milli þess að skapa atvinnu og vernda náttúruna. Rammaáætlun er einmitt til þess gerð. Það er merki um umhverfisáhuga sjálfstæðismanna að þeir skuli hafa haft frumkvæði að því að vinna við rammaáætlun fór af stað. Ég mótmæli því að sjálfstæðismenn séu á einhvern hátt á móti náttúrunni eða umhverfissóðar eins og kallað hefur verið. Ég held að þeir séu ekkert síður umhverfissinnaðir en heitustu umhverfissinnar nema að því leyti að þeir taka inn í dæmið að fólk þarf að lifa á þessari jörð.

Ef við lítum á Reykjavík ofan af Esjunni, sem ég hef gert nokkrum sinnum, sér maður þvílíkar óskaplegar umhverfisskemmdir Íslendingar hafa unnið á nágrenni Reykjavíkur og í Reykjavík sjálfri með til dæmis hraðbrautum og vegalagningu. Það er engin ósnortin strönd um Reykjavík lengur, ekki ein einasta nema smáskiki við Ægisíðuna, sem af einhverjum undarlegum ástæðum hefur orðið eftir þegar byggðir hafa verið grjótgarðar í kringum Reykjavík. Og það gerðist án þess að nokkur mótmælti. Svo er því mótmælt að byggja falleg uppistöðulón á öræfunum, sem gera ekkert annað en að bæta og fegra umhverfið og það sem er kannski mest um vert, gera umhverfið aðgengilegt almenningi og ferðamönnum. Enda er svo komið að virkjanir og stöðvarhús og annað slíkt er orðið hið merkilegasta mál að heimsækja fyrir ferðamenn.

Ég styð þetta frumvarp, mér finnst það mikið til bóta, það er mikil hugsun á bak við það. Ég vona að hv. Alþingi samþykki það og vinni áfram að sátt. Þetta er nefnilega frumvarp í átt til frekari sáttar þó að reynt hafi verið að valta yfir meiri hluta Alþingis af greinilegum minni hluta.