141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

3. mál
[14:28]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er sennilega rétt að ég hafi ekki svarað þessu með kvikmyndagerðarmennina og alla atvinnusköpun í kringum þjóðgarðana, en þeir menga líka. Ég vildi gjarnan að menn færu í hlutlaust mat á því hvaða tekjur kvikmyndagerð gefur. Kvikmyndagerðarmenn fá heilmikla eftirgjöf af sköttum sem önnur fyrirtæki fá ekki, þess vegna koma þeir hingað og út af náttúrunni að einhverju leyti, og síðan menga þeir heilmikið.

Sama er með ferðamenn. Ferðamenn menga alveg óhemjumikið. Ég vildi gjarnan að það yrði skoðað hlutlaust: Hvað mengar álver? Hvað mengar túristi? Hvaða tekjur gefur álver og hvaða tekjur gefur túristi? Á hvaða verði seljum við náttúruna, vegna þess að túristi eyðileggur náttúruna? Ég hef gengið Laugaveginn, almáttugur, það er ekki í líkingu við það sem það var upphaflega. Ég hef gengið Fimmvörðuháls, það liggur við að ég sé hættur að ganga þar því að ég vil ekki eiga þátt í því að eyðileggja hann, Kattahryggi o.s.frv. Ferðaþjónustan og ferðamaðurinn menga líka og skemma alveg helling, þannig að það er ekki rétt að verndun búi til atvinnu án mengunar.

Málið er ekki svart eða hvítt. Það hafa allir sína skoðun á því, sumir leggja áherslu á atvinnu, sérstaklega þeir sem eru að flytja til útlanda, sérstaklega þeir sem eru að missa vinnuna, geta ekki borgað af lánunum sínum o.s.frv., þeir vilja fá atvinnu. Aðrir sem sitja í góðum stöðum og þurfa ekki að óttast um afkomu heimila sinna horfa kannski meira á verndun. Svona skiptist þjóðin í hluta, í mörg litbrigði í afstöðu sinni til umhverfismála. Rammaáætlun reynir að sætta öll þessi sjónarmið og segja: Þetta ætlum við að virkja, þetta ætlum við ekki að virkja og þarna er eitthvað pínulítið í biðflokki. Það gerir rammaáætlun og ég styð þetta frumvarp.