141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

133. mál
[14:46]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er hárrétt, sem fram kom í máli hv. þingmanns, að það var fjárhagslegi þátturinn í greinargerð með frumvarpinu sem var harðlega gagnrýndur hér á síðasta þingi og sú gagnrýni var að mínum dómi á nokkrum rökum reist. En það höfum við okkur til málsbóta sem lögðum frumvarpið fram að þar var stuðst við áætlanir sem gerðar voru þegar málið kom fyrst til umræðu.

Síðan hefur það gerst að þær stofnanir sem undir þennan lagabálk heyra hafa orðið fyrir niðurskurði eins og aðrar án þess að njóta ávinningsins af samlegð og samþættingu. Þetta voru því í raun úreltar tölur, úreltar upplýsingar. Ég hygg hins vegar að hægt sé að nýta fjármunina betur og á markvissari hátt undir sameiginlegri regnhlíf.

Það er náttúrlega alltaf álitamál hvað eigi að heyra saman. Við höfum gengið í gegnum slíka umræðu þegar ólík ráðuneyti hafa verið sameinuð eins og dómsmálaráðuneyti, samgönguráðuneyti, mannréttindamál, fjarskipti o.s.frv. En hugsunin er sú að horfa eigi heildstætt á samgöngumálin og að endurspegla eigi þann veruleika í lögum og í þeim stofnunum sem sinna þeim málum.