141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

133. mál
[15:16]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir umræðuna sem hefur einkum verið af hálfu fyrri gagnrýnanda þessa frumvarps, en þeir eru margir og miklu fleiri sem eru frumvarpinu fylgjandi.

Aðeins til að leiðrétta einn þátt sem fram kom í máli síðasta ræðumanns um meintan fjárhagslegan ávinning af þessari breytingu þá er það alveg rétt, eins og ég gat um í minni upphaflegu ræðu, að þegar frumvarpið var fyrst lagt fram var gert ráð fyrir því að 10–15% hagræðing næðist af rekstrargjöldum. Gerð er grein fyrir þessari sögulegu staðreynd í greinargerð með frumvarpinu en síðan segir, með leyfi forseta:

„Ljóst er að lækkun fjárveitinga undanfarin ár eftir að frumvarpið var fyrst lagt fram hefur dregið úr tækifærum til hagræðingar. Stofnanirnar hafa þegar þurft að þola niðurskurð en án þess að njóta ávinnings af hagræðingu sem horft er til við sameiningu þeirra. Sameining stofnana getur varið þjónustuna, dregið úr neikvæðum afleiðingum minnkandi fjárveitinga og takmarkað útgjaldavöxt við hagstæðari fjárhagsleg skilyrði. Markmiðið með kerfisbreytingunni er að nýta betur fjármuni en jafnframt að verja stjórnsýslu- og þjónustuhlutverk þessara stofnana á niðurskurðartímum.“

Það er alltaf álitamál hver ávinningurinn er af öllum stofnanabreytingum en ég held að það sé ofætlan að ímynda sér að hægt sé að kortleggja það í smæstu smáatriðum hvernig framtíðin lítur út. Það sem hefur sannfært mig um að þetta sé skynsamleg ráðstöfun er sú breyting sem er að verða á nálgun okkar til samgöngumála. Farið er að horfa á heildstæðari hátt á samgöngurnar, hvort sem þær eru á landi, í lofti eða á sjó. Ég hef reynslu af því í starfi mínu sem innanríkisráðherra, ráðherra samgöngumála, að sitja oftar en ekki á fundum með fulltrúum þeirra stofnana sem nú eiga að komast undir sömu regnhlífina, til dæmis með fulltrúum Siglingastofnunar og Vegagerðarinnar sem sitja og ræða framkvæmdir í Landeyjahöfn. Þegar fjallað er um flugvellina eða flugsamgöngur er Vegagerðin oftar en ekki nærri vegna þess að menn horfa til þessa heildstætt. Þegar menn ræða vegabætur á Ströndum horfa þeir líka til flugvallarins á Gjögri. Menn hafa það allt saman undir öllum stundum.

Það má endalaust deila um hvort þetta sé eina rétta aðferðin til allrar framtíðar, menn geta haft mismunandi skoðanir á því. En málið er búið að fá rækilega athugun og þó að það séu væntanlega einhverjir sem hafa efasemdir um það innan allra stofnana eru þeir miklu fleiri og þeim hefur farið fjölgandi sem eru sammála þessum breytingum.

Ég hef sannfærst um það á fundum sem ég hef sótt hjá Siglingastofnun. Ég fékk undirskriftalista frá 90 starfsmönnum Vegagerðarinnar um daginn. Það var ekki til að mótmæla þessum kerfisbreytingum, það var til að mótmæla vinnubrögðum á þinginu, að það eigi að láta það viðgangast að svona mál sé lagt fram af hálfu stjórnvalda, míns ráðuneytis líka, og að við séum að hringla með það endalaust án þess að komast að niðurstöðu. Ég óska eftir því að málið fari í nefnd og síðan greiði Alþingi atkvæði um frumvarpið. Ef menn eru svo andvígir þessu, margir hér í salnum, verður frumvarpið væntanlega bara fellt en við þá fáum lýðræðislega niðurstöðu í málið sem er það sem ég óska eftir. Búið er að fara rækilega yfir þetta mál. Það er hægt að hártoga það endalaust, ég geri mér grein fyrir því, og síðan eru skoðanir kunnar.

Ég þekki skoðanir hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar en ég held að ég viti ekki síður um viðhorf innan þessara stofnana sem hann segist hafa heimsótt um þessi mál. Ég veit það að fólk vill fá niðurstöðu í málið og þó að einhverjir þingmenn vilji fara aðra leið í stofnanabreytingum verða þeir að virða það við okkur hin að málið fái lýðræðislega afgreiðslu í þinginu. Það var komið vel á veg, á síðustu metrana, undir þinglokin í vor, en ég féllst á fyrir mitt leyti, þó að ég ráði náttúrlega ekki þinginu, að málinu yrði frestað. En nú er gert ráð fyrir gildistöku laganna um næstu áramót og ég segi: Það er mjög mikilvægt fyrir þessa starfsemi og starfsfólkið sem þarna vinnur að Alþingi komist að niðurstöðu hið allra fyrsta í málinu.