141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

133. mál
[15:22]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir innlegg hans í lok umræðunnar. Ég get tekið heils hugar undir það sem hæstv. ráðherra benti á sem snýr að starfsfólki þessara stofnana þar sem hann vitnaði til þess að hann hefði fengið undirskriftalista frá 90 starfsmönnum Vegagerðarinnar. Þetta er alveg hárrétt ábending, ég tek undir hana.

Hæstv. ráðherra sagði að það væri mjög eðlilegt að málið fengi afgreiðslu. Ég get líka verið sammála því, en ég átta mig samt ekki alveg á því af hverju hæstv. ráðherra talar um það hér. Ef hann meinar að þingið hafi talað mikið um þetta mál þá man ég ekki eftir því. Það er þá við stjórn þingsins að sakast ef málið var ekki tekið á dagskrá. Ég átta mig því ekki alveg á hvað hæstv. ráðherra á við þar.

Síðan gefur hæstv. ráðherra það í skyn, eða ég skil það þannig, ég ætla svo sem ekki að gera hæstv. ráðherra upp nein orð í því sambandi, að einhverjir fáir þingmenn séu að reyna að stoppa málið. Ég hef alltaf talað mjög skýrt í þessu máli, ég hef aldrei beitt mér gegn því í þinginu að málið sé afgreitt, enda hef ég ekki vald til þess þannig að ég átta mig ekki alveg á hvað hæstv. ráðherra er að fara. Það er ágætt að hæstv. ráðherra átti sig á því að þegar hann var í stjórnarandstöðu var alltaf sagt að hann réði mjög miklu um hvaða mál dúkkuðu upp í restina. Það hefur kannski orðið breyting á hjá hæstv. ráðherra núna. Eftir að hann komst í stjórnarmeirihluta ræður hann kannski aðeins minna um það. En það er ekki hægt að segja um þetta mál að um það hafi verið talað mjög lengi og mikið.

Hæstv. ráðherra sagði í andsvari sínu að það væri erfitt að fara alveg nákvæmlega ofan í smæstu atriði í málinu. En finnst hæstv. ráðherra það þá óeðlileg krafa að það liggi til dæmis fyrir hvernig fjárveitingin skiptist á milli Farsýslu ríkisins og Vegagerðarinnar og hver fjárveitingin og hagræðingin muni verða á viðkomandi stofnun? (Forseti hringir.) Finnst honum það til of mikils mælst?