141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

Vegagerðin, framkvæmdastofnun samgöngumála.

138. mál
[15:29]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um Vegagerðina, framkvæmdastofnun samgöngumála, sem einnig var lagt fram á 139. þingi og 140. löggjafarþinginu.

Með frumvarpi þessu er lagt til að sett verði á fót framkvæmdastofnun undir heitinu Vegagerðin sem sinnir framkvæmdum og viðhaldi samgöngumannvirkja ásamt því að fara með eignarhald og sinna rekstri þeirra. Myndun stofnunarinnar er hluti af heildarendurskoðun á skipulagi samgöngustofnana sem felur í sér að settar verði á fót tvær stofnanir, annars vegar Farsýslan og hins vegar Vegagerðin. Stofnanirnar verða reistar á grunni núverandi samgöngustofnana, þ.e. Siglingastofnunar Íslands, Flugmálastjórnar Íslands, Umferðarstofu og Vegagerðar.

Samhliða þessu frumvarpi er flutt frumvarp um Farsýsluna sem mælt var fyrir áðan.

Myndun stofnananna tveggja er samþætt verkefni og því eru almennar athugasemdir við þetta frumvarp að miklu leyti samhljóða almennum athugasemdum við frumvarp um Farsýsluna. Ég vísa áður til þess að ég hef flutt ítarlegar ræður um þetta frumvarp, svo og um Farsýsluna á fyrra þingi og tel ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri. Ég legg áherslu á að afgreiðslu frumvarpsins verði hraðað sem mest má þannig að það geti komið til 2. umr. og hv. samgöngunefndar núna en fái síðan skjóta afgreiðslu í þinginu þannig að starfsfólk þessara stofnana fái sem fyrst niðurstöðu Alþingis í þessu efni.