141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

lögreglulög.

173. mál
[15:32]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögreglulögum, nr. 90/1996, en frumvarpið var áður lagt fram á 140. löggjafarþingi og er nú endurflutt. Í frumvarpinu er lagt til að mælt verði fyrir um breytingu á fjölda og skipan lögregluumdæma og aðskilnað löggæslu frá starfsemi sýslumannsembætta, bakgrunnsathuganir og útgáfu öryggisvottana, hæfisskilyrði þeirra er starfa innan lögreglunnar auk annarra breytinga á lögreglulögum.

Það skal tekið fram að samhliða framlagningu frumvarps þessa er hafin á vegum ráðuneytisins, í náinni samvinnu við starfsmenn og hagsmunasamtök innan lögreglunnar, vinna við ýmis umbótaverkefni sem ætlað er að styðja við eflingu lögreglunnar með ýmsum hætti, svo sem varðandi skilgreiningu á grunnþjónustu, skiptingu fjárveitinga og aukið rekstraröryggi og framtíðarsýn lögreglunnar á grundvelli skýrrar stefnumótunar. Frumvarp þetta er mikilvægur þáttur í því umbótastarfi.

Ég legg áherslu á að frumvarpið hefur áður komið fyrir þingið. Ég talaði fyrir því og flutti ítarlega framsöguræðu þegar það var lagt fram á síðasta þingi. Ég lét þess getið að mikilvægt væri að það fengi ekki afgreiðslu þá heldur fengi þingið góðan tíma til að ígrunda málið. En að auki er gert ráð fyrir að þær kerfisbreytingar sem hér eru lagðar til, fækkun lögregluumdæma og sýslumannsumdæmanna að sama skapi, taki ekki gildi fyrr en í byrjun árs 2015.

Hins vegar er að finna ákvæði í lögunum, heimildarákvæði, til að ráðast í breytingar fyrr ef aðstæður skapast fyrir slíkt og það tel ég mjög mikilvægt. Þetta frumvarp og einnig frumvarpið um sýslumenn eru unnin í mjög nánu samstarfi við lögregluna og sýslumenn. Það hefur farið í gegnum mjög ítarlegt samráðsferli. Ég vek athygli á einum þætti sem þarf að íhuga. Það eru lífeyrismál sem hafa jafnan komið við sögu þegar fækkun lögregluumdæmanna hefur borið á góma.

Ég ætla ekki, hæstv. forseti, að fjölyrða um þetta frekar en tek þátt í umræðum ef spurningar koma fram eða menn vilja vekja máls á tilteknum þáttum. Ég mun svara því eins og ég mögulega er fær til.

Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr. þar sem málið var til skoðunar síðastliðið vor.