141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

lögreglulög.

173. mál
[15:36]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mjög mismunandi sjónarmið hafa verið uppi innan lögreglunnar og í samfélaginu almennt um skipulag löggæslu. Ég var sjálfur þeirrar skoðunar að að sumu leyti væri heppilegasta fyrirkomulagið eitt lögregluumdæmi í landinu öllu og síðan væru starfsstöðvar sem tækju breytingum eftir því sem aðstæður þróast og þörf er á. Þetta er hins vegar niðurstaðan. Þarna eru málamiðlanir á ferð, að fækka embættunum niður í átta, það er hugsunin.

Eftir sem áður er embætti ríkislögreglustjóra sem hefur að gegna ýmsum veigamiklum þjónustuþáttum við löggæsluna almennt í landinu. Þar hafa mismunandi sjónarmið verið uppi innan lögregluembætta, t.d. annars vegar lögregluembættisins á höfuðborgarsvæðinu og hins vegar lögregluembætta víða úti á landi sem hafa verið því fylgjandi að sem flest verkefni, svo sem víkingasveitin, séu hjá ríkislögreglustjóra en ekki hjá embættinu á höfuðborgarsvæðinu. Ég nefni þetta sem dæmi um mismunandi áherslur sem hafa verið uppi.

Ég er þeirrar skoðunar sjálfur að það sem gildir um landið allt, almennir þjónustuþættir sem allt landið á að njóta góðs af, eigi að vera hjá embætti ríkislögreglustjóra. Það er mín skoðun.