141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

lögreglulög.

173. mál
[15:39]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Þetta mál hefur verið rætt áður eins og hæstv. innanríkisráðherra kom inn á. Hæstv. ráðherra mælti fyrir þessu frumvarpi á síðasta þingi og greindi þá sérstaklega frá því, sem er ekki mjög vanalegt um ráðherra, að hann óskaði eftir því að málið fengi ekki afgreiðslu þá. Skynsamlegra væri að fara sér að engu óðslega og reyna að vinna málið vel og taka þá tillit til sjónarmiða sem kynnu að koma upp í meðferð málsins.

Það er sannarlega til bóta þegar verið er að gera breytingar á stofnanaumhverfi, ekki síst úti á landsbyggðinni, að menn geri það þannig að þeir reyni að sjá framtíðina fyrir sér og átta sig á öllum þeim afleiðingum sem slík breyting kynni að hafa í för með sér.

Þetta frumvarp gerir ráð fyrir því, eins og hæstv. ráðherra sagði, að það taki ekki gildi fyrr en í ársbyrjun 2015. Það er líka til bóta. Þá gefst væntanlega tækifæri til að fara yfir málin og undirbúa hlutina. Það getur vel verið að í því ferli, eins og menn eru farnir að tala um þessa hluti í samtímanum, komi eitthvað í ljós sem geri það að verkum að gera þurfi aðrar breytingar á lagasetningunni ef frumvarpið verður gert að lögum á þessu þingi.

Ég vek hins vegar athygli á því að þegar hæstv. ráðherra mælti fyrir þessu var varla liðið fram á árið 2012. Þá má gera ráð fyrir því að þetta mál geti komið til afgreiðslu þegar mjög verður liðið á 2012. Þegar frumvarpið var lagt fram var gert ráð fyrir því að gildistakan yrði 1. janúar 2015. Þá vaknar sú spurning hvort ekki væri eðlilegt, í ljósi þeirra viðhorfa sem hæstv. ráðherra setti fram þegar hann mælti fyrir málinu, að seinka jafnvel gildistökunni frekar. Það væri í anda þess sem hæstv. ráðherra talar fyrir og hefur unnið að þegar hann hefur undirbúið þetta mál, þ.e. að reyna að vinna þessi mál þannig að það skapi sem minnst umrót og sé sem best undirbúið því að það varðar mjög miklu.

Því er auðvitað ekki að neita, eins og við öll vitum, að gríðarleg tortryggni ríkir hjá fólki á landsbyggðinni gagnvart hugmyndum um sameiningar stofnana eins og boðaðar eru með þessu frumvarpi. Ástæðan er mjög einföld, sú að sporin hræða. Við höfum óskaplega vonda reynslu af þessu almennt talað. Þó að til séu góðar undantekningar þá hefur reynslan almennt verið vond af þessum sameiningum. Það vantar ekki að þessum áformum hefur fylgt mikill velvilji af hálfu þeirra sem hafa verið að tala fyrir þessum breytingum.

Ég hygg að það sé hér um bil undantekningarlaust að þegar ráðherrar hafa boðað breytingar af þessu tagi þá hafi það alltaf fylgt með að ætlunin væri ekki sú að það hefði röskun í för með sér gagnvart íbúum á landsbyggðinni þar sem slíkar stofnanir eru sameinaðar né heldur að draga mundi úr þjónustu. Öðru nær. Yfirleitt hafa slíkar sameiningar verið rökstuddar með því að þær séu faglega nauðsynlegar, að þær spari kannski ekki endilega svo mikla peninga, þó að það sé yfirleitt látið fylgja með, en séu faglega nauðsynlegar. Þjónusta verði betri þannig að íbúarnir sem einu sinni bjuggu við eina litla stofnun í nágrenni sínu muni nú búa við þjónustu frá miklu stærri stofnun sem geti veitt þeim miklu fjölbreyttari og betri þjónustu. Við vitum hvernig yfirleitt hefur farið um sjóferð þá, hún hefur yfirleitt ekki endað neitt sérstaklega vel.

Það er því mjög eðlilegt að við sem höfum haft þessa reynslu, íbúar á landsbyggðinni, fyllumst tortryggni þegar upp koma hugmyndir um miklar sameiningar á veigamiklum stofnunum sem varða nærþjónustu hér um bil allra í landinu. Það er eðlilegt að við spyrjum spurninga.

Nú ætla ég að segja að þessi mál hafa þróast mjög til betri vegar í meðferð málsins alls. Upphaflega voru uppi hugmyndir, eins og kom fram áðan, um að sameina alla löggæsluna undir einn hatt og hafa eina yfirstjórn á löggæslunni í landinu og síðan annexíur úti um landið þar sem löggæsluþjónustan færi þó fram. Sem betur fer var horfið frá því.

Þá hófst vers númer tvö og það var hugmyndin um að fara fram með verulega miklar sameiningar þar sem lögreglustjóraembættin ættu að vera, ef ég man rétt, sex. Eitt þeirra átti til dæmis að ná frá Bolungarvík í norðri til Hvalfjarðarbotns í suðri svo að dæmi sé tekið — ná yfir Snæfellsnesið, allan Vestfjarðakjálkann, Borgarfjarðarsýslu, Akranes og inn í Hvalfjarðarbotn. Þetta var auðvitað galin hugmynd. Sem betur fer varð ekkert af henni.

Sama var að segja um sameiningaráformin á Norðurlandi, eitt embætti átti að ná frá Hrútafjarðarbotni og austur að Langanesi, ef ég man rétt, sem hefði verið jafngalin hugmynd. Öllum var ljóst að þetta gat ekki haft í för með sér annað en lakari þjónustu, alveg sama hvaða augum menn reyndu að líta málið. Sem betur fer, og það vil ég þakka hæstv. ráðherra, var horfið frá þessu. Ég tel að þær hugmyndir sem nú eru uppi, um þessar sameiningar, séu miklu nær því sem við getum almennt talið skynsamlegar og séu viðunandi fyrirkomulag fyrir íbúa á landsbyggðinni.

Stóra spurningin sem við þurfum hins vegar að velta fyrir okkur í þessu sambandi er þessi: Mun þetta leiða til betri faglegrar þjónustu? Mun þetta leiða til betri löggæslu? Verða íbúar landsins betur settir hvað þetta áhrærir? Verður öryggi þeirra betur tryggt en það er í dag? Ég ætla mér ekki þá dul að svara þessu út í hörgul en ég tel hins vegar að þeir sem fara með þetta mál, til dæmis þeir sem sitja í þeirri nefnd sem mun fá málið til meðhöndlunar, verði að fara ofan í þetta alveg sérstaklega. Mun það til dæmis skila árangri að vera með þessi stóru löggæsluumdæmi í því skyni að tryggja þá löggæslu sem við viljum hafa með höndum?

Ég nefni þetta líka vegna þess að við vitum að þær sameiningar sem þegar hafa átt sér stað hafa leitt til þess að mjög margir íbúar í hinum dreifðari byggðum, hinum fjarlægari byggðum, telja að á sig hafi verið hallað. Ég veit að hæstv. innanríkisráðherra man það ekki síður en ég að íbúar í Dalasýslu hafa verið ákaflega óánægðir með að þeirra lögreglumannsstaða var lögð niður. Þeir bentu á að Dalasýsla er heil sýsla og býsna víðfeðm og að umferð í gegnum Dalasýslu hefur aukist með breyttum vegasamgöngum, með veginum yfir Arnkötludal og Gautsdal. Umferðin frá Ísafirði og norðurhluta Vestfjarða hefur farið í gegnum Dalasýslu og þar með aukið álag á þetta svæði. Það er þó nokkur spölur frá Búðardal í Borgarnes og þó að menn séu allir af vilja gerðir sem þar eru, og það veit ég að þeir eru, þá getur það verið býsna umhendis að sinna þjónustunni um svo langan veg. Þess vegna er það svo mikilvægt fyrir okkur að þessi mál séu skoðuð strax í upphafi þegar menn eru með áform um þessar stóru sameiningar.

Atvinnuveganefnd Alþingis var á dögunum í heimsókn austur í Vík í Mýrdal. Þar hafa menn til dæmis mjög miklar áhyggjur af löggæslumálum og benda á að það sveitarfélag sé án starfandi lögreglumanns. Þá löggæslu sem þeir búa við þurfa þeir að sækja um lengri veg og ekki bara það heldur er staðan í Mýrdalshreppi mjög sérstök vegna nálægðarinnar við Kötlu, ótta manna við Kötlugos. Fólk spyr sjálft sig: Hvað er til ráða ef illa fer? Hvernig eigum við að bregðast við? Löggæslan skiptir miklu máli í almannavarnahlutverkinu og við verðum að horfa á þessi mál út frá sjónarhóli íbúanna sjálfra. Það eru þeir sem eiga að búa við þetta og verða að hafa fullvissu um að breytt fyrirkomulag geri öryggismál hjá þeim ekki lakari.

Við verðum líka að ræða þessi mál í samhengi við annað frumvarp, sem er á dagskrá hér á eftir, og það er sameining sýslumannsembættanna. Í greinargerð sem fylgir því frumvarpi kemur fram að 13 sýslumenn fari með lögreglustjórn í landinu, og ég hef áður nefnt að lögreglustjórnin í landinu hefur verið að þróast í þá átt að hún nær yfir stærri svæði, umfangsmeiri svæði, að hluta til eru það sýslumenn sem fara með lögreglustjórnina en að hluta til eru það lögreglustjórar. Sú breyting sem við erum að tala um mun hafa ýmislegt í för með sér í því sambandi. Þarna verður býsna mikil röskun og breyting sem ég tel að við þurfum að horfa til.

Annað sem ég vil nefna í þessu sambandi og skiptir miklu máli er það að þegar verið er að ræða um að stækka lögregluembættin, eins og hér er verið að boða, þá hefur oft fylgt að ein meginröksemdin sé sú að með því að stækka lögregluembættin verði þau faglega betri og verði betur í færum til að takast á hendur margs konar þjónustu sem íbúarnir og borgararnir kalla eftir vegna breyttra aðstæðna. Við þekkjum það að glæpir og slíkir hlutir hafa orðið alvarlegri, ofbeldisverkin alvarlegri, glæpastarfsemin margslungnari, og það kunni að kalla á stærri lögreglumannaembætti að þurfa að takast á við þetta.

Þá vaknar óhjákvæmilega þessi spurning: Ef við erum að fara að tala um að stækka þessi lögregluumdæmi, eins og hér er verið að boða og frumvarpið gerir ráð fyrir, hljótum við að spyrja okkur, og það er spurning sem ég vil gjarnan að hæstv. ráðherra velti að minnsta kosti fyrir sér: Sjáum við þá í hendi okkar einhverja möguleika á því að einhver sú lögreglustarfsemi sem nú er veitt frá ríkislögreglustjóra eða lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu fari þá fram frá héruðunum sjálfum?

Ég vil í því sambandi nefna, það er nefnt í greinargerð með frumvarpinu hygg ég, að hugmyndir voru um að færa verkefni frá ríkislögreglustjóra og út á land en horfið hafi verið frá því af ástæðum sem mig rekur ekki lengur minni til hverjar voru. Þetta hljómar dálítið ankannalega í mínum huga, án þess að ég hafi efnislegar skýringar á reiðum höndum. Á sama tíma og við erum að tala um að bæta hina faglegu stöðu með því að stækka lögregluembættin segjum við að við getum ekki séð að hægt sé að færa verkefnin frá ríkislögreglustjóraembættinu eða lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, eða frá öðrum stofnunum sem sinna þessum verkefnum, til hinna stóru lögregluembætta í landinu. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki sé ástæða til að skoða þetta frekar.

Að lokum, virðulegi forseti, vil ég aðeins nefna að í greinargerð og umfjöllun fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins er frumvarpið dálítið gagnrýnt, kannski að nokkru leyti undir rós. Talað er um að ekki hafi farið fram greining á fyrirkomulagi nýrra lögregluumdæma, ekki liggi fyrir neinar rekstraráætlanir, ekki mat á mögulegum biðlaunarétti og sagt að það kynni að hafa verið heppilegra að eitthvað af þessu tagi hefði verið framkvæmt áður en lagafrumvarpið færi í gegn. Nú sé ég að meginþunginn í röksemdafærslunni fyrir þessari stækkun lögregluembætta er ekki endilega rekstrarlegur sparnaður heldur kannski frekar það sem ég hef verið að tönnlast á um hina faglegu styrkingu þessara embætta. Gott og vel. Þess vegna kann það að vera að af þeim ástæðum hafi ekki verið talin ástæða til að fara í þessa greiningu sem fjárlagaskrifstofan er að gagnrýna að ekki hafi verið framkvæmd. En ég vil hins vegar spyrja hæstv. ráðherra um hans viðhorf, hvernig hann bregst við þessari gagnrýni. Er það þá hugmyndin að þessi greiningarvinna fari fram á undirbúningstímabilinu sem menn hafa á árunum 2013 og 2014? Eða hvað er í raun og veru að baki?

Virðulegi forseti. Tíminn flýgur frá mér. Ég vil í 1. umr. málsins fyrst og fremst árétta að ég hef innbyggða tortryggni í mínum kolli þegar kemur að hugmyndum um sameiningar stofnana af þessu tagi og alveg sérstaklega stofnana sem starfa á landsbyggðinni. Þar er reynslan einfaldlega svo ólygin að ég get ekki horft fram hjá því. Þess vegna nálgast ég þetta mál af mikilli varúð eins og mér finnst raunar hæstv. ráðherra gera með því að hafa lagt það fram á sínum tíma með því fororði að það ætti að vinna það á góðum tíma og sömuleiðis með þeim ásetningi, sem kemur fram í gildistökuákvæðinu um það, að gildistakan verði í ársbyrjun 2015. Allt er það gott og blessað.

En ég tel hins vegar að stóra málið sé þá þetta: Erum við sannfærð um að þessi breyting muni leiða til þess að löggæslan að lágmarki versni ekki? Og er það þá ekki sannfæring þeirra sem bera þetta mál fram að hún muni fremur batna og löggæslan á landsbyggðinni geti þá náð til þátta sem hún hefur ekki náð til áður? Þetta eru grundvallarspurningarnar sem þarf að svara en ekki tönnlast á einhverjum kreddum um að gott sé að sameina stofnanir. Ég hef mínar efasemdir um það. Aðalatriðið er það hvort þetta nái því markmiði að bæta löggæsluna í landinu.