141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

lögreglulög.

173. mál
[15:54]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég get tekið undir mjög margt sem fram kom í ræðu hv. þingmanns og einnig nálgun hæstv. ráðherra. Hann nálgaðist málið af mikilli varfærni og hafði skoðað það mjög vel, bæði markmiðin og afleiðingarnar af því að fækka embættunum og eins leiðir til að ná fram öðrum skýrum markmiðum sem mikil þörf er á.

Við hv. þingmaður vorum saman í ferð um daginn með hv. atvinnuveganefnd þar sem mikið var rætt um löggæslumál í Mýrdalnum og er það mjög gott dæmi. Ég get tekið dæmi annars staðar að af landinu þar sem dreifbýli er mikið og langt á milli þéttbýliskjarna en mikil og viðvarandi hætta á náttúruhamförum. Það sýndi sig í smærri mynd í hittiðfyrra að það er langt í lögregluna, í flóðum þegar brúin yfir Múlakvísl fór. Eins er viðvarandi ótti meðal fólks vegna áhrifa af Kötlugosi.

Þess vegna skiptir miklu máli, ef það verður niðurstaða þingsins að fara þá leið sem hér er lögð til, að því fylgi fagleg styrking lögreglunnar og bætt löggæsla, það sé forsenda breytinganna, og einnig að tekin verði ákvörðun um að lögreglumenn séu staðsettir á fleiri stöðum en í dag.

Vík í Mýrdal er mjög afgerandi dæmi um stað þar sem langt er í báðar áttir í næstu lögreglumenn, á Hvolsvelli og Klaustri. Á þessu víðfeðma og mikla svæði, þar sem fólk býr við margs konar náttúruvá, er lögreglumannslaust. Skapar það óöryggi meðal íbúanna og grefur undan öryggistilfinningunni. Því þarf að mæta.

Þess vegna vildi ég segja við hv. þingmann, af því að ég held að við séum nokkuð sammála í öllum aðalatriðum, að ef sýnt er fram á að styrking á grunnþjónustunni, grunnstarfsemi lögreglunnar, (Forseti hringir.) muni klárlega fylgja fækkuninni sé þetta ásættanleg leið, annars ekki.