141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

lögreglulög.

173. mál
[15:59]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það kom skýrt fram hjá hv. þingmanni sem ég kallaði eftir. Fari menn í nokkuð róttækar breytingar á fækkun lögregluumdæma með það að markmiði að spara í yfirstjórn, ná fram faglegum slagkrafti í embættin og öðrum háleitum, vel fram settum og sannfærandi markmiðum í frumvarpi hæstv. ráðherra, skiptir það sköpum að í sömu yfirferð í þinginu, þar sem farið verður í gegnum frumvörp um breytingar á lögreglulögum og fækkun embætta og svo aftur fækkun sýslumanna, að starfsemi og umfang grunnþjónustunnar í nokkrum af hinum smærri og viðkvæmari byggðakjörnum verði tryggt.

En það má ekki gera lítið úr því að víða þar sem fámennt er og samfélög hafa dregist saman, eins og við ræddum um varðandi Mýrdalinn áðan, skipta þessir hlutir gríðarlegu máli. Við lásum í blöðunum í dag ályktun frá félagi lögreglumanna í Árnessýslu þar sem lögreglumönnum hefur fækkað á nokkrum missirum úr 26 í 20. Er það að margra mati komið niður fyrir þolmörk og öryggismörk. Það þarf að skoða, það er grunnþjónustan. Það varðar öryggistilfinningu íbúanna og það umfang sem lögreglan hefur til að sinna störfum sínum. Þeir segja þar að þeir séu komnir niður fyrir 15 þús. manna íbúasvæði, en þar eru 30 þús. manns um helgar og til lengri tíma í heilsárshúsum. Lögreglumenn segja að engin leið sé fyrir þrjá menn á vakt að sinna svo stóru svæði, svo miklum fjölda.

Yfir það þurfum við að fara um leið þannig að grunnþjónustan um allt land, úti á landi ekki síður en á höfuðborgarsvæðinu, sé tryggð. Um leið og tekin verður ákvörðun um róttækar breytingar eins og þessa, með hvaða hætti sem það verður gert, verður að tryggja grunnþjónustu hringinn í kringum landið.

Ég held að það sé mikill samhljómur þvert á flokka um (Forseti hringir.) málið.