141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

áfengislög.

134. mál
[16:37]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef íhugað þetta og við höfum gert það sem höfum komið að þessum málum. Ég heyri að hv. þingmaður hefur gert það sjálfur. Þarna er ákveðið misræmi, það er alveg rétt, í aðstöðu aðila. Við erum þarna að hallast á sveif með ríkjum, samtökum og heilbrigðisstofnunum sem eru að reyna að taka á þessum vanda. Ég held að framtíðin verði þessi, á nákvæmlega sama hátt og reykingar eru á útleið, verið er að úthýsa þeim víðast hvar, þrengja að möguleikum til að auglýsa tóbak og neyta tóbaks í almannarými, þá held ég að það verði líka veruleikinn að menn munu ekki aðeins hér á landi heldur einnig erlendis reyna að setja þessum markaði einhverjar skorður.

Þá vil ég taka undir með hv. þingmanni að ég sé ekki ástæðu til að fresta málinu. Ef það er þannig að meiri hluti þingsins er frumvarpinu andvígur kemur það einfaldlega í ljós í atkvæðagreiðslu og þá verður að íhuga aðrar leiðir. Ef hins vegar meiri hlutinn er með þessu er þetta niðurstaðan. Niðurstaðan er náttúrlega sú núna, eins og kom fram í máli hv. þingmanns, að áfengisauglýsingar eru bannaðar á Íslandi. Það er einfaldlega farið fram hjá lögunum, þau eru sniðgengin eins og hv. þingmaður orðaði það. Það er með öllu óásættanlegt.