141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

skaðsemisábyrgð.

137. mál
[16:42]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um skaðsemisábyrgð, nr. 25/1991.

Frumvarp þetta er samið í tilefni af því að Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, tók til nánari skoðunar samræmi laga nr. 25/1991, um skaðsemisábyrgð, við tilskipun 85/374/EBE, um sama efni. Ástæða könnunarinnar var að með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 79/2010 var felld hlutlæg skaðsemisábyrgð á tjóni bæði á framleiðanda og dreifingaraðila, skv. 2. mgr. 4. gr. og 10. gr. laga um skaðsemisábyrgð. Telur ESA það stríða gegn ákvæðum tilskipunarinnar, en Evrópudómstóllinn hafði árið 2006 komist að þeirri niðurstöðu að ákvæði danskra laga um skaðsemisábyrgð sem leggja hlutlæga bótaábyrgð, bæði á framleiðanda og dreifingaraðila, hefðu verið andstæð ákvæðum tilskipunarinnar. Ákvæði íslensku laganna eru sambærileg að efni til og danska löggjöfin og því er það mat ESA að breyta þurfi íslensku lögunum að þessu leyti.

Einnig er lagt til að ákvæði b-liðar 9. gr. tilskipunarinnar um lágmarksfjárhæð tjóns, þ.e. 500 evrur, sé lögfest hér á landi.

Frumvarp þetta er fyrst og fremst samið til að koma til móts við athugasemdir ESA og tryggja rétta innleiðingu tilskipunar 85/374/EBE.

Lögin um skaðsemisábyrgð voru samin og samþykkt á Alþingi árið 1991 og voru þau að verulegu leyti byggð á sambærilegum lögum í Danmörku en íslenskur skaðabótaréttur byggist að mörgu leyti á sömu grunnreglum og þeim sem gilda í Danmörku og dönsk dómafordæmi hafa mikla þýðingu innan skaðabótaréttar hér á landi. Í því skyni að halda því lagasamræmi sem er á milli ákvæða dönsku laganna og þeirra íslensku er í frumvarpi þessu höfð hliðsjón af dönskum lögum um skaðsemisábyrgð eins og þeim var breytt í kjölfar úrskurðar Evrópudómstólsins frá 2006.

Hæstv. forseti. Ég hef rakið helstu atriði frumvarpsins og legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allsherjar- og menntamálanefndar.