141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

tólf ára fjarskiptaáætlun fyrir árin 2011--2022.

172. mál
[17:20]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Varðandi fjarskiptasjóð er það svo að þegar hann var settur á laggirnar við sölu Símans fylgdu honum sólarlagsákvæði. Gert var ráð fyrir því að sjóðurinn fjaraði út á fimm árum. Ég fékk lögunum hins vegar breytt þannig að líftími hans var lengdur og ég sé það fyrir mér að hann eigi eftir að lifa enn um sinn og þurfi að lifa enn um sinn, ekki síst í ljósi þeirra athugasemda sem fram komu hjá hv. þingmanni. Það er ekkert óeðlilegt að menn hafi ekki haft á reiðum höndum verkefni fyrir sjóð sem var að dauða kominn, en þannig hafði Alþingi gengið frá málunum hér í upphafi. En það er bara ekki kominn tími til að leggja þennan sjóð af, því miður.

Ég tek undir það með hv. þingmanni að mjög mikilvægt atriði þegar nútímamaðurinn skilgreinir lífsskilyrði sín er aðgangur að tölvutækni, að háhraðaneti og öðru slíku. Það skiptir mjög miklu í byggðaþróun að hafa þessi mál í sem allra bestu lagi. Ég tek undir þau meginsjónarmið sem komu fram hjá hv. þingmanni.

Ég vil fyrst og fremst þakka fyrir þessa umræðu og vonast til þess að samgönguáætlanir til skamms og langs tíma — það er rétt ábending sem kom frá hv. þingmanni að sumt er þegar liðið, en þarna eru engu að síður áform uppi sem eru sígild þó að dagsetningarnar séu rangar. Ég vonast til þess að málið fái eins skjóta afgreiðslu í þinginu og kostur er.