141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

umferðarlög.

179. mál
[17:30]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til nýrra umferðarlaga. Frumvarp þetta hefur verið í smíðum um nokkurt skeið. Ef það verður að lögum er því ætlað að leysa af hólmi núgildandi umferðarlög, nr. 50/1987, sem löngu tímabært var orðið að endurskoða.

Nefnd hefur unnið að þeirri endurskoðun frá því í nóvember 2007. Hún skilaði af sér drögum að frumvarpi til nýrra umferðarlaga í júní 2009 og í kjölfarið voru þau sett á vef ráðuneytisins til umsagnar. Mikill fjöldi athugasemda barst og var unnið úr athugasemdunum á vegum ráðuneytisins og frumvarpsdrögin síðan sett að nýju til umsagnar á vef ráðuneytisins. Ég legg áherslu á að fá frumvörp hafa fengið eins mikla almenna umfjöllun í þjóðfélaginu og þetta frumvarp hefur gert, t.d. á vefnum, verið til umræðu á fundum, smáum og stórum, ráðstefnum og þingum þar sem einstök atriði hafa verið rædd.

Frumvarpið var fyrst lagt fram á 138. löggjafarþingi 2009–2010 af þáverandi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, en varð þá ekki útrætt. Það var lagt fram aftur á 139. löggjafarþingi með nokkrum breytingum að mínu frumkvæði. Frumvarpið varð ekki útrætt á því þingi og fór í kjölfarið fram endurskoðun á því í innanríkisráðuneytinu bæði með tilliti til þeirra athugasemda sem höfðu borist samgöngunefnd Alþingis og enn fremur þeirrar þróunar sem orðið hefur á sviði umferðarmála hér á landi á undanförnum árum. Ég lagði frumvarpið fram á síðasta vorþingi en ekki var mælt fyrir því og hlaut það því enga efnislega meðferð á þinginu. Það er lagt fram á ný í nær óbreyttri mynd.

Ég geri nú nánari grein fyrir einstökum nýmælum og breytingum sem felast í þessu umfangsmikla frumvarpi.

Fyrst ber að nefna að sett er inn markmiðsgrein í 1. gr. frumvarpsins en slíkt hefur ekki verið í fyrri umferðarlögum. Markmið frumvarpsins er umfangsmikið en það er „að vernda líf og heilsu vegfarenda með auknu umferðaröryggi þar sem jafnræðis er gætt milli vegfarenda, óháð samgöngumáta, og tillit tekið til umhverfissjónarmiða við skipulagningu umferðar“.

Á þeim rúmlega 100 árum sem liðin eru frá því að farið var að nota bifreiðar sem samgöngutæki hér á landi hefur fórnarkostnaðurinn í umferðinni því miður verið allt of hár. Ekki hefur liðið svo ár að fleiri eða færri hafi ekki farist og slasast í umferðarslysum. Marktækur árangur hefur þó náðst á undanförnum árum í fækkun umferðarslysa en betur má ef duga skal. Þessi þróun gefur okkur þó vonir um að ná sambærilegum árangri í fækkun banaslysa í umferð á landi eins og á sjó og í lofti þar sem banaslysum hefur svo til verið útrýmt.

Í samræmi við það sjónarmið að gefa gangandi og hjólandi vegfarendum meira vægi er sett fram skilgreining á óvörðum vegfaranda: „Vegfarandi sem ekki er varinn af yfirbyggingu ökutækis í umferð, svo sem gangandi og hjólandi vegfarandi, þ.m.t. ökumaður og farþegi bifhjóls og torfærutækis.“ Til samræmis við þetta er nú fjallað um öryggis- og verndarbúnað óvarinna vegfarenda en ekki einungis hjólreiðamanna í frumvarpinu.

Eitt helst nýmæli frumvarpsins er að lagt er til að lækkuð verði mörk leyfilegs vínandamagns í blóði ökumanns úr 0,5 í 0,2 prómill. Með lækkun marka áfengismagns í blóði ökumanns er verið að senda skýr skilaboð til ökumanna og þjóðfélagsins í heild að akstur og áfengisdrykkja fer einfaldlega ekki saman. (Gripið fram í: En má þá drekka maltöl?) — Það fer eftir því hvað hv. þingmaður er fær um að þamba mikið magn. — Ekki er þó gert ráð fyrir ökuleyfissviptingu ef magn áfengis er milli 0,2 prómill og 0,5 prómill heldur einungis sekt.

Í frumvarpinu er lagt til það mikilvæga nýmæli að lágmarksaldur til að öðlast ökuleyfi verði hækkaður úr 17 árum í 18 ár. Í bráðabirgðaákvæði er gert ráð fyrir að aldursmörk verði hækkuð í áföngum til ársins 2017. Á árinu 2017 verði 18 ára aldursmarkið að fullu komið til framkvæmda miðað við að frumvarpið verði að lögum þann 1. janúar 2013.

Hvers vegna ættum við að hækka bílprófsaldurinn? Að mati rannsóknarnefndar umferðarslysa er talið unnt að áætla í ljósi fyrirliggjandi rannsókna að hlutfallsleg fækkun umferðarslysa meðal nýliða yrði á bilinu 5–9% ef tillögur frumvarpsins yrðu að veruleika. Umferðarslys eru algengasta dánarorsök fólks á aldrinum 15–24 ára innan OECD-ríkja, en rúmlega 35% þeirra sem láta lífið á þessu aldursbili farast í umferðarslysum. Til þess er einnig að líta að einstaklingar öðlast lögræði við 18 ára aldur, þ.e. sjálfræði og fjárforræði. Núgildandi fyrirkomulag veldur því vandkvæðum að ýmsu leyti þegar ökumaður undir 18 ára aldri lendir í slysi sem veldur honum eða öðrum teljanlegu fjárhagstjóni en hann getur ekki borið fjárhagslega ábyrgð á ökutæki sínu án aðkomu foreldra eða forsjármanna.

Ökuréttindaflokkar eru nú tilgreindir í heild sinni í frumvarpinu í stað þess að hafa nákvæma upptalningu á reglugerðarheimildum vegna mismunandi ökuréttindaflokka eins og er í núgildandi lögum. Ákvæðið um ökuréttindaflokka er byggt á samræmdum reglum um ökuskírteini á Evrópska efnahagssvæðinu sem koma til framkvæmda 1. janúar 2013 í samræmi við ákvæði til bráðabirgða í frumvarpinu.

Í frumvarpinu er það mikilvæga nýmæli að lagt er til að 70 ára reglan um gildistíma almenns ökuskírteinis verði afnumin en í þess stað verði meginreglan sú að gildistími almenns ökuskírteinis verði 15 ár frá og með 1. janúar 2013 í samræmi við samræmdar reglur á EES-svæðinu. Á þetta við hvort sem um er að ræða ný eða endurútgefin ökuskírteini, t.d. ef ökuskírteini hefur glatast. Eldri ökuskírteini halda þó gildi sínu og gilda eftir sem áður til 70 ára aldurs.

Í frumvarpinu er tekin upp ný skilgreining á léttum bifhjólum, þ.e. létt bifhjól í flokki I og flokki II. Lágmarksaldur til að stjórna léttu bifhjóli í flokki I er 15 ár, hjálmaskylda og námskeið eru skilyrði fyrir að mega stjórna slíku bifhjóli. Enn fremur er nú áskilið að barn sjö ára eða yngra sem er farþegi á bifhjóli skuli sitja í sérstöku sæti. Heimildir Vegagerðarinnar til eftirlits með akstri ökutækja til farþega og farmflutninga yfir 3,5 tonnum að leyfðri heildarþyngd eru auknar og gert er ráð fyrir heimildum Vegagerðarinnar til að leggja á gjald, stjórnvaldssektir, í stað sektar lögreglu. Þetta varðar eftirlit með aksturs- og hvíldartíma ökumanna, búnaði, stærð og þyngd og hleðslu ökutækja.

Hugtakið „umráðamaður“ er í frumvarpinu sett þannig fram að það er eingöngu innan sviga á eftir hugtakinu „eigandi“, en í upphaflegu frumvarpi var það sett þannig fram á nokkrum stöðum en einnig sem eigandi eða umráðamaður. Er þetta gert til að leggja áherslu á að réttindi og skyldur umráðamanns byggjast í raun á samningum eiganda og umráðamanns en að á hann verði ekki lagðar sjálfstæðar skyldur. Er með þessu leitast við að eyða þeirri lagalegu óvissu sem hefur verið uppi um samningssamband þegar fjármunaréttarlegir samningar liggja þar að baki.

Lagt er til að Vegagerð og sveitarfélagi í þéttbýli sé heimilt að setja upp löggæslumyndavélar sem ætlaðar eru til að nema umferðarlagabrot. Nú opnast sá möguleiki að um hlutlæga ábyrgð sé að ræða þegar brot eru numin í slíkum vélum eins og til dæmis stöðumælagjöld. Þetta fyrirkomulag er eðlilegt í ljósi markmiðssetningar frumvarpsins.

Lagt er til að utan tímabils sé notkun negldra hjólbarða á vélknúnum ökutækjum óheimil. Í sektarreglugerðinni er gert ráð fyrir að lögreglan geti sektað ökumann sem er á bifreið með nagladekkjum eftir að því tímabili lýkur sem það er leyft. Með því að hafa jákvætt bann við notkun nagladekkja í frumvarpinu opnar það á þann möguleika að hægt sé að beita sektum við því þegar ökutæki er á nagladekkjum fram yfir leyfða dagsetningu. Þá opnast sá möguleiki að sveitarfélögin geti haft eftirlit með þessu og farið þess á leit við ráðherra að gjald renni í sveitarsjóð í stað þess að það renni til ríkisins. Er það mun eðlilegra þar sem það kemur í hlut sveitarfélagsins að malbika götur sem nagladekk hafa spænt upp þegar götur eru orðnar auðar.

Lagt er til að heimilt verði undir ákveðnum kringumstæðum þegar brot er numið í löggæslumyndavél að láta eiganda eða umráðamann ökutækis sæta refsiábyrgð á hlutlægum grundvelli að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Þannig mundi eigandi ökutækis vera ábyrgur en ekki ökumaður í vissum tilvikum. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að heimilt verði að gera skráðum eiganda eða umráðamanni vélknúins ökutækis að greiða sekt ef brot er numið í löggæslumyndavél, þ.e. hraðakstur eða akstur gegn rauðu ljósi. Tillagan um hlutlæga ábyrgð hefur verið í frumvarpinu frá upphafi að því er varðar hraðakstur en akstur gegn rauðu ljósi er nýmæli. Þetta á einungis við þegar ekið er á ákveðnum hámarkshraða. Ef aksturinn varðar punkta í ökuferilsskrá er um hefðbundið lögreglumál að ræða.

Á undanförnum árum hefur öðru hvoru skapast umræða hér á landi um hugsanlega tekjutengingu viðurlaga með beinum hætti vegna brota á umferðarlögum. Fordæmi fyrir slíku fyrirkomulagi eru í nágrannaríkjunum Finnlandi, Danmörku, Svíþjóð og Þýskalandi svo dæmi séu tekin. Helstu rökin fyrir tekjutengingu viðurlaga við umferðarlagabrotum eru að núgildandi fyrirkomulag sektargreiðslna þjóni ekki tilgangi sínum gagnvart hátekjufólki og til sé hópur fólks hér á landi sem virði ekki einstök ákvæði umferðarlaga þar sem greiðsla sektar vegna brota á þeim varðar viðkomandi ákaflega litlu fjárhagslega séð. Ég beitti mér fyrir því að þetta mál væri sérstaklega skoðað og varð niðurstaðan sú að lögð er til í frumvarpinu takmörkuð tekjutenging sekta. Felst hún í því að heimilt verði að veita sakborningi sem hefur tekjur undir hálfum öðrum lágmarkslaunum allt að 25% afslátt af upphaflegri sektarfjárhæð. Með þessu tel ég að komið sé að einhverju leyti til móts við tekjulága hópa í þjóðfélaginu. Ljóst er að það skiptir verulegu máli hvaða tekna sá aflar sem þarf að standa skil á umferðarlagasektum og má segja að sektargreiðsla þess sem er tekjuhár sé í raun minni refsing en sektargreiðsla þess sem er með lægri laun. Er með ákvæðinu leitast við að rétta hlut þeirra sem minna mega sín tekjulega séð.

Rétt er að halda því til haga hér að starfshópur sem falið var að gera tillögu að framtíðarskipan stofnana samgöngumála skilaði skýrslunni Framtíðarskipan stofnana samgöngumála, greining og valkostir, útgefinni í júní 2009. Í skýrslunni kemur fram að ýmis ráð sem heyra undir ráðuneyti mitt séu fjölmenn og einkum vísað til Umferðarráðs í því sambandi, draga megi í efa að svo fjölmenn ráð séu nægilega skilvirk. Nefndin leggur til að skoðaður verði vel sá kostur að fela samgönguráði að annast nauðsynlegt samráð við hagsmunaaðila í stað þess fyrirkomulags sem nú er. Jafnframt er lagt til að stofnanirnar sjálfar setji saman samráðshópa, kjósi þær svo, eða skipuleggi samráð um ýmis sérmál og tæknileg úrlausnarefni með öðrum hætti og að samgönguþing verði í auknum mæli vettvangur samráðs hagsmunaaðila.

Á grundvelli þessara sjónarmiða er ákvæði 115. gr. gildandi umferðarlaga um Umferðarráð fellt úr frumvarpi þessu. Það þýðir þó alls ekki að samráðsvettvangur um umferðarmál verði lagður niður, fremur að hugað verði að nýrri skipan þessara mála þegar frumvarp þetta verður að lögum í samræmi við fyrrgreindar tillögur. Reynslan sýnir að starfsemi stórra lögbundinna ráða er oftar en ekki þung í vöfum og er því orðið að mínu mati tímabært að huga að breyttri skipan þessara mála. Þetta er þó atriði sem mér finnst eðlilegt að samgöngunefnd taki til rækilegrar skoðunar og ég legg áherslu á að með þessum hugmyndum er ekki ætlunin að draga úr samráði við hagsmunaaðila sem tengjast umferð og umferðarmenningu, alls ekki. Spurningin er að vera ekki með þetta lögbundið en haga samráðinu með öðrum hætti.

Í frumvarpinu er kveðið á um að ákvæði XIII. kafla gildandi umferðarlaga um fébætur og vátryggingu verði samhliða afnumin með það í huga að sett verði sérlög um ökutækjatryggingar, en þessi mál fluttust til viðskiptaráðuneytisins þann 1. janúar 2004 á sama tíma og umferðarmál fluttust til samgönguráðuneytisins. Í ákvæði til bráðabirgða er þó gert ráð fyrir að kaflinn haldi gildi sínu þar til ný lög taka gildi um lögmæltar ökutækjatryggingar. Af hálfu efnahags- og viðskiptaráðuneytisins var lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um ökutækjatryggingar á 140. löggjafarþingi sem varð ekki útrætt. Mun frumvarpið verða lagt fram á ný af hálfu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis á þessu þingi. Legg ég áherslu á að afar mikilvægt er að frumvarp til umferðarlaga og frumvarp til laga um ökutækjatryggingar fari samhliða í gegnum þingið þar sem um er að ræða endurskoðun gildandi umferðarlaga.

Ég hef nú farið yfir helstu nýmæli sem felast í frumvarpinu og breytingum frá gildandi lögum þó svo að ekki hafi unnist tími til að greina frá öllum þeim breytingum og nýmælum sem er að finna í frumvarpinu. Það varðar þjóð okkar miklu að vel takist til um endurskoðun umferðarlaga enda snerta þau lög í raun flesta þegna landsins í sínu daglega lífi. Ljóst er að skoðanir eru skiptar um ýmsa þætti umferðarlöggjafarinnar en ég tel engu að síður að með samþykkt þessa frumvarps muni Ísland standa jafnfætis eða jafnvel framar þeim þjóðum sem við berum okkur saman við hvað umferðaröryggi og heildstæða umferðarlöggjöf varðar.

Að lokum vil ég leggja áherslu á að margar veigamiklar breytingar eru fyrirhugaðar á umferðarlöggjöfinni verði frumvarpið að lögum. Ég vek athygli á því að lagt er til að frumvarpið taki gildi 1. janúar 2013. Er afar þýðingarmikið að frumvarp þetta, sem hefur verið í smíðum um nokkurt árabil og hefur áður fengið umfjöllun á þinginu, hlotið víðtæka umsögn og verið breytt í kjölfar athugasemda, verði að lögum á þessu þingi.

Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. umhverfis- og samgöngunefndar.