141. löggjafarþing — 14. fundur,  8. okt. 2012.

jöfnun húshitunarkostnaðar.

[15:18]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Við þurfum meiri tíma en 2 mínútur ef við ætlum að fara yfir þetta mál. Ég held að það sé því miður ekki rétt sem hv. þingmaður segir, að Ísland hafi alltaf óskað eftir undanþágu. Það var einfaldlega ekki gert. Það var engin sérstök undanþága sem tók tillit til landfræðilegra aðstæðna Íslands sem var sett fram af Íslands hálfu þegar önnur raforkutilskipunin var tekin upp af okkar hálfu og þegar hún var innleidd var gengið lengra en við þurftum að gera. Bókhaldslegur aðskilnaður hefði nægt í tilviki framleiðslu- og dreifingarfyrirtækjanna en það var ekki látið duga og við vitum hverjir bera pólitíska ábyrgð á því. (SIJ: … 2008.) Það er því allt í góðu að ræða það við hv. þingmann á sínum stað. (Gripið fram í: En málið sjálft?)

Staðan er eins og hún er. Reynist þessi leið ekki fær — og hún er allt annars eðlis en almennur skattur sem allir greiða og gengur í ríkissjóð því að tilfærsla innan málaflokksins getur strandað á öðrum hlutum eins og kunnugt er — þá stöndum við frammi fyrir þessari spurningu: Verðum við ekki að auka fjárframlög til beinnar niðurgreiðslu yfir fjárlög? Það er auðvitað það sem ég mun þá leggja til.