141. löggjafarþing — 14. fundur,  8. okt. 2012.

tillögur stjórnlagaráðs.

[15:20]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Nú styttist í 20. október, þjóðaratkvæðagreiðslu um allt land. (Gripið fram í.) [Hlátur í þingsal.] — Það er ágætt að vita hversu vel hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson fylgist með tímatalinu, mjög ánægjulegt. Þar sem þá verða bornar margar spurningar af ólíkum toga undir almenning í landinu er ekki úr vegi að forvitnast örlítið um afstöðu helstu forvígismanna þessa máls á þinginu til einstakra álitaefna.

Ég vil gjarnan inna hæstv. ráðherra eftir því hver afstaða hans er gagnvart 5. spurningunni í þessari atkvæðagreiðslu, sem lýtur að því að atkvæði kjósenda alls staðar að á landinu vegi jafnt. Hæstv. ráðherra hefur setið á þingi frá árinu 1983, svo lengi sem elstu menn muna, og hefur aldrei verið (Gripið fram í.) beinlínis forgöngumaður þess að ganga þennan veg til enda, eins og hér liggur fyrir, því að að mati þeirra sem gerst þekkja mun þetta ákvæði þýða að óbreyttu að þingmönnum landsbyggðarinnar muni fækka um helming. Mig fýsir því að heyra afstöðu hæstv. ráðherra til þessarar tillögu og hvort hæstv. ráðherra Steingrímur Jóhann Sigfússon frá Gunnarsstöðum í Þistilfirði muni segja já við þessari spurningu.