141. löggjafarþing — 14. fundur,  8. okt. 2012.

samkomulag um fyrir fram greiddan skatt.

[15:35]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Niðurstaðan er vitanlega sú að loforð eða undirritanir þessarar ríkisstjórnar eru einskis virði. Það skiptir engu máli hvað ríkisstjórnin segir eða skrifar undir. Það stendur í samkomulaginu, með leyfi forseta:

„… ásamt sköttum á raforku og kolefnislosun vegna fljótandi eldsneytis, sem lagðir verða á með sérstökum lögum, mun standa í þrjú ár frá árinu 2010 að telja. Skattarnir eru tímabundnir og falla niður í lok árs 2012.“

Þetta er það sem ríkisstjórnin lofaði. Að sjálfsögðu deilir enginn um að ríkisstjórnin hefur heimildir og vald til að breyta þessu. Það er enginn að deila um það að hægt sé að setja lög og breyta þeim eða taka aðrar ákvarðanir. En þessu var lofað, þetta er það sem skrifað var undir og þetta er það sem ríkisstjórnin lofaði fyrirtækjunum að standa við og gera. En það sem ríkisstjórnin er því miður einna frægust fyrir er að svíkja það sem hún segir.