141. löggjafarþing — 14. fundur,  8. okt. 2012.

staða aðildarviðræðnanna við ESB.

[15:52]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Þegar ákveðið var í þessum sal að óska eftir viðræðum við Evrópusambandið um aðild Íslands að bandalaginu bundu margir vonir við að viðræðunum mundi ljúka á þessu kjörtímabili. Ég vil þó taka fram að hvergi eru skrifaðir í gögn málsins, og þá vísa ég fyrst og fremst til nefndarálits utanríkismálanefndar frá þessum tíma, neinir tímafrestir hvað það snertir.

Útséð er um það að mínu viti að viðræðunum ljúki á kjörtímabilinu. Erfiðustu kaflarnir eru enn eftir en ég vil líka taka fram að af Íslands hálfu hefur verið lokið við umfjöllun um 28 kafla af 33 nú þegar. Ekki verður því sagt að samninganefnd Íslands eða aðrir sem að þeim málum koma, svo sem utanríkismálanefnd Alþingis eða ríkisstjórn, hafi ekki unnið vel á grundvelli ályktunar Alþingis. Þvert á móti hefur verið unnið ágætlega hvað undirbúninginn snertir. En tenging Evrópusambandsins við óskylt ágreiningsmál, makríldeiluna milli Íslands, Evrópusambandsins, Færeyja, Noregs og Rússlands, hefur óneitanlega varpað öðru ljósi á framgang málsins og sú tenging hefur ítrekað verið gagnrýnd af hálfu Íslands.

Þróun efnahags- og peningamála í Evrópu og góður árangur núverandi ríkisstjórnar við að koma efnahagsmálum Íslands á rétta braut hefur einnig haft áhrif á mat margra á stöðunni nú. Því er eðlilegt að við metum stöðu viðræðnanna og hvernig best verði haldið á þeim í framhaldinu. Einkum þarf að horfa til þess hvort líklegt sé að viðræður verði í meginatriðum á sama stað við kjörtímabilamót og er í dag.

Við mat á því hvernig best er að halda á málum verður fyrst og fremst að meta hvað gagnast Íslandi best, bæði að því er varðar ferlið sjálft og eins í sambandi við samskipti okkar við Evrópusambandið almennt, m.a. á sviði efnahagsmála og með tilliti til langtímahagsmuna í viðskiptum.

Þá er sömuleiðis brýnt að það verði íslenska þjóðin sem ákveði framtíð sína hvað tengslin við Evrópu áhrærir og sá réttur verði ekki af henni tekinn. Því væri að mínu viti misráðið að slíta viðræðum nú.