141. löggjafarþing — 14. fundur,  8. okt. 2012.

staða aðildarviðræðnanna við ESB.

[16:01]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir að taka þetta mál upp. Hún varpaði ágætu ljósi á þau stærstu álitamál sem efni standa til að ræða. Það er hins vegar ótrúlegt að fylgjast með því hvernig umræðan verður af hálfu stjórnarliða. Hvers vegna í ósköpunum er ekki hægt að taka þessa umræðu eins og til er ætlast og svara þeim spurningum sem beint er að hæstv. ráðherrum eða einstökum þingmönnum?

Orðavaðall stjórnarliða minnti mig á máltækið „flýtur á meðan ekki sekkur“. Reynt er að skauta fram hjá meginatriðum í máli manna. Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson ræðir meðal annars tímasetningar í þessu ferli og fullyrðir að hvergi sé skrifað í gögn málsins að viðræðum skuli lokið á kjörtímabilinu. Ég spyr af því tilefni: Eru umræður hér í þingsal ekki gögn málsins? Eru yfirlýsingar einstakra ráðherra í ríkisstjórninni ekki gögn málsins? Ég minni á yfirlýsingar hæstv. menntamálaráðherra og hæstv. umhverfisráðherra um að forsendur væru breyttar fyrir þeirri ákvörðun sem tekin var á þingi um aðildarumsóknina sem fyrir liggur.

Það er eðlilegt að spurt sé hvað tefji þetta ferli. Það er eðlilegt að ætlast til þess að við þeirri spurningu séu gefin ákveðnari svör en þau sem fengust til dæmis hjá hæstv. utanríkisráðherra áðan. Þegar spurt er að hvaða sambandi verið sé að sækja um aðild þá er það afgreitt í einni snoturri setningu: Það er að minnsta kosti ekki sambandsríki. Hvurslags svar er það eiginlega? Ætlast er til þess að hæstv. ráðherra gefi fyllri svör en þau sem hér hefur verið reynt að gefa um það gríðarlega mikilvæga verkefni sem hann hefur forgöngu um að vinna fyrir meiri hluta Alþingis.