141. löggjafarþing — 14. fundur,  8. okt. 2012.

staða aðildarviðræðnanna við ESB.

[16:08]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Umsókn um aðild að Evrópusambandinu var ekki kosningamál fyrir síðustu alþingiskosningar vorið 2009 heldur uppgjör við hrunið og endurreisn íslensks efnahagslífs á heilbrigðum grunni. Þar bauð Vinstri hreyfingin – grænt framboð fram krafta sína. Með umsókn að ESB sem eins fyrsta mál þingsins var að mínu viti komið aftan að mörgum kjósendum Vinstri grænna og þeirri grunnstefnu sem sá flokkur byggir á. Alþingi samþykkti mjög naumlega þingsályktunartillöguna 16. júlí 2009 með aðstoð þingmanna úr Sjálfstæðisflokki, Framsóknarflokki og Hreyfingunni. Það skulu menn hafa hér hugfast — raunar með minnsta meiri hluta sem hugsast gat. (Gripið fram í.) Nú þremur … (BirgJ: Borgarahreyfingin greiddi ekki atkvæði með þessu.) Það var einn þingmaður, frú … (BirgJ: Það hef ég …)

(Forseti (ÞBack): Forseti …)

Einn af frambjóðendum og þingmönnum Hreyfingarinnar … (Gripið fram í.)

(Forseti (ÞBack): … orðastað … gefið …)

Það er ekki hægt að afneita þingmönnum sínum eftir á.

Alþingi gerði að skilyrðum sínum (Gripið fram í.) við þessa samþykkt að ákveðnum grundvallaratriðum væri fylgt, meginhagsmunum fyrir íslensku þjóðina. Þannig var umboð ríkisstjórnarinnar til samninga skilyrt.

Nú liggur fyrir að víkja verður verulega frá þeim meginhagsmunum sem Alþingi setti á sínum tíma sem viðmið til þess að samningarnir geti haldið áfram, til þess að hægt sé að leggja fram samningsafstöðu sem Evrópusambandið tekur gilda.

Ég minni á að þessi umsókn var ekki send í umboði þjóðarinnar. Ég tel að nú þegar ljóst er að fylgja verður kröfum Evrópusambandsins í einu og öllu hvað þetta varðar — þær marka línuna — beri að afturkalla umsóknina því að hún gengur þvert á fullveldishagsmuni Íslendinga. Ég legg til að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla um (Forseti hringir.) það hvort við viljum sækja um aðild að Evrópusambandinu eða ekki og förum (Forseti hringir.) í gang með málin að þeirri atkvæðagreiðslu lokinni, frú forseti.