141. löggjafarþing — 14. fundur,  8. okt. 2012.

staða aðildarviðræðnanna við ESB.

[16:11]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Forseti. Ég vil biðja hv. þm. Jón Bjarnason afsökunar á að grípa fram í fyrir honum, það stóð alls ekki til. Við erum alls ekki að afneita hv. þm. Þráni Bertelssyni sem þingmanni Borgarahreyfingarinnar en hann hefur aftur á móti aldrei verið þingmaður Hreyfingarinnar. Rétt skal vera rétt.

Ég tel að eina tækifærið fyrir Samfylkinguna til að ljúka þessum viðræðum, áframhaldi á samningsviðræðum við Evrópusambandið, sé fyrir næstu kosningar. Ef það tekst ekki er málið eiginlega sjálfdautt. Það hlýtur að vera lag fyrir hæstv. utanríkisráðherra að beita þeim rökum fyrir sig þegar hann sækist eftir því að lokið verði við að opna alla þessa kafla. Það er engum til hagsbóta, hvorki þeim sem fylgja þessu eða eru á móti því, að halda áfram að draga lappirnar í þessu máli.

Ég tel mjög skynsamlegt að þegar næst verður gengið til kosninga til Alþingis verði jafnframt kosið um það hvort við viljum halda áfram í þessu ferli ef ekki verður búið að leiða það til lykta. Mig langar að spyrja hæstv. utanríkisráðherra hvað honum finnist um þá tillögu.

Mig langaði líka að heyra hvort hann viti eitthvað hvernig stemmningin er gagnvart hvalnum og hvort einhver áhugi sé á að fá undanþágur. Ég er sjálf ekki hlynnt neinu slíku.

Mér finnst líka mjög mikilvægt að fyrir næstu kosningar látum við ekki alla orðræðuna snúast um ESB heldur um þau brýnu málefni sem þarf að leysa úr hérlendis. Við þurfum svo sannarlega að vera með fókus á innanríkismálin og ekki bíða eftir töfralausnum (Forseti hringir.) frá ESB.

Ég vil jafnframt taka undir það með hv. þm. Lilju Mósesdóttur að það er nauðsynlegt að endurskoða EES-samninginn.