141. löggjafarþing — 14. fundur,  8. okt. 2012.

sérmerking á vörum frá landtökubyggðum.

127. mál
[16:32]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Sigmundi Erni Rúnarssyni fyrir að taka þetta mál upp og lýsi fullum stuðningi við það sem hann sagði um nauðsyn þess að sérmerkja vörur frá landtökubyggðum á landi Palestínu.

Það er fáheyrt og ólíðandi að neytendur skuli blekktir til að styðja við landtökuna með því að hingað séu fluttar inn vörur, eins og hæstv. ráðherra sagði, merktar með örsmáu letri að þær séu framleiddar í Ísrael en eru framleiddar á þessum landtökubyggðum. Þetta eru fjöldamargar vörur. Við getum hvert fyrir sig tekið upp eigið viðskiptabann á ísraelskar vörur en það er mikilvægt að þetta verði að veruleika til að halda meðvitund heimsins og okkar allra vakandi um það sem er að gerast í Palestínu.

Ég vil þakka hæstv. utanríkisráðherra ekki bara fyrir svör hans hér og viðhorf heldur einnig sérstaklega fyrir frumkvæði hans og stuðning í ráðherratíð hans, og reyndar fyrr, við málstað Palestínu.