141. löggjafarþing — 14. fundur,  8. okt. 2012.

sérmerking á vörum frá landtökubyggðum.

127. mál
[16:34]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir umræðuna og aðkomu hv. þingmanna Álfheiðar Ingadóttur og Árna Þórs Sigurðssonar að henni. Jafnframt þakka ég hæstv. ráðherra fyrir að taka algerlega af skarið í þessu efni og þar er hann vitaskuld samkvæmur sjálfum sér. Hæstv. ráðherra hefur talað mjög máli Palestínumanna á undanliðnum árum og nú síðast fyrir missiri eða svo fögnuðum við því að við studdum við fullveldi og sjálfstæði palestínsku þjóðarinnar hér í þingsal.

Hæstv. ráðherra nefndi prinsippið. Auðvitað kann að vera að við flytjum inn lítið magn af vörum frá landtökubyggðunum, hinum rændu svæðum fyrir botni Miðjarðarhafs, en prinsippið þarf að vera afdráttarlaust. Við þurfum að láta þau boð út ganga með öllum ráðum að íslensk þjóð, íslensk stjórnvöld á hverjum tíma taki á þessum málum út frá prinsippi. Við getum einfaldlega sett okkur sjálf í spor palestínsku þjóðarinnar, hún býr við þann múr sem ég nefndi sem nú jafngildir leiðinni milli Reykjavíkur og Eskifjarðar, 702 kílómetrar. Þar eru bændur afgirtir og innilokaðir þannig að þeir þurfa að fara um miðja nótt út á akra sína og sofa þar yfir nóttina svo að þeir hafi tíma til að komast á markaðinn um morguninn. Svona er stór hluti bænda á Vesturbakka Jórdanar leikinn á landtökusvæðum Ísraela. Á sama tíma hafa Ísraelar tekið til sín land í auknum mæli á síðustu missirum og það er alvarleiki málsins. Það eru nefnilega engar nógu sterkar aðgerðir nú í gangi til að andmæla kröftuglega þeirri auknu landtöku (Forseti hringir.) sem Ísraelar stunda. Þess vegna þurfum við að beita öllum ráðum, þar á meðal þessum, til að segja: Þetta líðum við ekki.