141. löggjafarþing — 14. fundur,  8. okt. 2012.

malbikun bílastæða við Reykjavíkurflugvöll.

13. mál
[16:45]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrir það fyrsta þakka hæstv. ráðherra fyrir þau svör sem hér hafa komið fram, til dæmis um forsöguna sem er svipuð því sem ég hafði farið í gegnum í fyrri ræðu minni. Það gleður mig að heyra frá hæstv. ráðherra það sem hún sagði síðast, þ.e. að hún muni beita sér fyrir því að allir málsaðilar verði fengnir til að leysa þetta sem allra fyrst þannig að sómi sé að og jafnframt að jafnræði flugrekstraraðila og þeirra sem nota völlinn verði tryggt. Ég get að sjálfsögðu tekið undir það allt saman.

Auðvitað ætti Isavia sem eigandi og umsjónaraðili vallarins, umsjónaraðili allavega, að gera þetta. Við þekkjum fjárhagsstöðu Isavia. Við vitum að það þarf að hækka notendagjöldin mikið en þau eru komin að ystu þolmörkum. Við getum ekki gengið lengra í aukinni skattheimtu hvað það varðar án þess að stórskaða innanlandsflug og snarhækka alla flugmiða sem eru nógu dýrir fyrir.

Ég get sagt það eitt, virðulegi forseti, að mér finnst það í raun virðingarvert að Flugfélag Íslands, sem aðalrekstraraðili og sá stærsti á þessu svæði, skuli ætla að leggja út í allt að 80 millj. kr. framkvæmd við að gera bílastæðið þokkalegt, malbika það og hafa það eins og hjá fólki. Þetta segi ég þó að því fylgi að taka upp gjaldskyldu til að greiða þann kostnað niður, það bara fylgir með.

En Isavia hefur ekki gert þetta. Flugfélagið hefur byrjað á þessu og gerði það í góðri trú, út frá samningnum frá 2007 sem ég gat um áðan. En aðalatriðið er þetta: Þetta er í pattstöðu. Nú er sá árstími genginn í garð að það gæti orðið illmögulegt að malbika, orðið kalt og bleyta og annað slíkt. Ég þakka því hæstv. ráðherra fyrir þetta svar. Ég trúi því og treysti (Forseti hringir.) að hún beiti sér fyrir því að allir málsaðilar komi að málinu og leysi það þannig að sómi sé að. Það er grundvallaratriði.