141. löggjafarþing — 14. fundur,  8. okt. 2012.

lífeyristökualdur.

95. mál
[16:57]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka þessa umræðu og aðkomu hv. þm. Péturs H. Blöndals að henni og svör hæstv. ráðherra. Það er ánægjulegt að nefnd skuli vera að fjalla um þetta mál og umræðan sé í deiglunni innan embættismannakerfisins og ráðuneytisins. Full þörf er á því. Eins og hæstv. ráðherra nefndi eru að baki hverjum ellilífeyrisþega fimm starfandi menn en verða tveir eftir örfáa áratugi. Þá sjáum við hvert stefnir í þessum efnum. Þjóðin er að eldast mjög hratt og það er í sjálfu sér gott. Við hljótum því að fylgja sömu þróun þegar kemur að lífeyristökualdrinum sjálfum og við sjáum að áhugi landsmanna, hinna vinnandi stétta, er verulegur á því að leggja sitt af mörkum þótt menn séu orðnir rosknir. Samkvæmt þeim tölum sem hæstv. ráðherra nefndi vilja 40% af þeim sem eru orðnir 67 ára á hinum almenna vinnumarkaði halda áfram og 13% eftir sjötugt. Þær pósentutölur eiga væntanlega eftir að hækka í sömu stigum og aldur þjóðarinnar fer hækkandi.

Við hljótum að spyrja að stefnu stjórnvalda í þessum efnum, hvort stjórnvöld hafi tekið ákveðna stefnu í málum er varða upptöku lífeyris og við hvað eigi að miða, hvort hæstv. ráðherra sé þeirrar skoðunar að yfirleitt komi til greina að hækka lífeyristökualdurinn. Rétt eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal sagði virðist það í raun vera eina leiðin til að taka á þeim vanda sem blasir við sveitarfélögum landsins, sem eru að taka til sín (Forseti hringir.) æ stærri hluta af opinberri þjónustu, og ríkinu sjálfu.