141. löggjafarþing — 14. fundur,  8. okt. 2012.

lífeyristökualdur.

95. mál
[16:59]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Mér finnst mestu máli skipta að við vinnum þetta vel og náið með aðilum vinnumarkaðarins og samtökum launþega. Það er aðalatriðið að við gerum það vel og það er verið að gera í þessari nefnd. Lífeyrissjóðskerfið var fyrst sett á laggirnar árið 1969, það er líka komið vel við aldur. Það var um 1990 sem farið var að greiða af öllum launum í lífeyrissjóð. Menn segja að reikna megi með að okkar kerfi verði orðið fullburða um árið 2020. Þetta er um margt merkilegt kerfi, en það skiptir máli að við séum sívakandi yfir því að það sé sem best á hverjum tíma og grípum til þeirra aðgerða sem þarf til að kerfið geti nýst best þeim sem munu reiða sig á það síðar og líka þeim sem eru að greiða inn í það og safna sér réttindum þar. Þess vegna er það lykilatriði við alla ákvarðanatöku að allt sé gert í góðu samráði við þá sem í hlut eiga.

Sjálf mundi ég telja best að menn fengju sem mestan sveigjanleika í þessu, að það væri innbyggt í kerfið að starfslok væru sveigjanleg. Við erum ólík, einstaklingarnir eru ólíkir, aðstæður eru ólíkar, þannig að menn gætu haft þetta eins og hentaði hverjum og einum. Það hlýtur að vera markmiðið sem við öll horfum til að einstaklingurinn fái að hafa þetta eins og honum hentar best. Þannig ættum við að reyna að nálgast málið að mínu mati. Eins og ég segi þá vinnst þetta best í gegnum þessa nefnd með þessum aðilum. Ég vænti þess að við sjáum afrakstur af þeirri vinnu á þessum vetri.