141. löggjafarþing — 14. fundur,  8. okt. 2012.

háskólanemar og námsstyrkir.

114. mál
[17:01]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. menntamálaráðherra varðandi háskólanema og námsstyrki. Í upphafi kjörtímabilsins kom í ljós að ungmenni sem kláruðu framhaldsskóla snemma og leituðu inn í háskólana til frekara náms áttu ekki kost á því að njóta námslána eða kjara sem aðrir háskólanemar fengu hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna sökum aldurs. Þá tók ráðherra það upp eftir meðal annars fyrirspurn frá mér í þinginu að breyta því fyrirkomulagi. Ég er forvitin að vita hvernig þetta allt saman hefur gengið og beini því þessari fyrirspurn til hæstv. ráðherra:

1. Hversu margir nemendur undir 18 ára aldri hafa stundað nám á háskólastigi eftir að lög nr. 108/2011, um breyting á lögum um námsstyrki, nr. 79/2003, tóku gildi?

2. Hversu margir nemendur á háskólastigi hafa fengið jöfnunarstyrk á grundvelli laganna?

3. Hvernig hafa styrkirnir verið kynntir fyrir háskólanemum?

Ég tel mikilvægt að við náum að átta okkur á þeirri stöðu. Í rauninni er forvitnilegt að sjá hversu vel gekk að koma fram breytingum í skólakerfinu á grundvelli þeirrar vinnu sem þáverandi ráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, setti af stað þannig að nemendur hefðu meira svigrúm og frelsi til að þróa námshraða sinn frekar en var til dæmis þegar ég var á menntaskólaárunum. Núna er það þannig að einstaklingur getur í rauninni, gangi honum vel í námi og gangi námið hratt fram, verið kominn í háskóla áður en hann verður 18 ára. Það er mikil breyting á kerfinu og er mjög til batnaðar. En auðvitað verðum við að fylgja því allt til enda og sjá til þess að það fólk, ungmennin, hrökklist ekki úr námi vegna þess að þau hafa einfaldlega ekki fjárhagslega stöðu til að fara beint í háskóla að loknu framhaldsnámi.

Frú forseti. Ég hlakka til að heyra svör hæstv. ráðherra.