141. löggjafarþing — 14. fundur,  8. okt. 2012.

kennsla í næringarfræði.

157. mál
[17:07]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Frú forseti. Ég kem hingað upp til að vekja athygli þings og þjóðar á mikilvægi þess að efla til muna kennslu í næringarfræði í grunnskólum landsins. Á hinu háa Alþingi eru grunnskólalögin til umfjöllunar í hv. allsherjar- og menntamálanefnd og þær breytingar sem þar þarf að gera teknar fyrir á þeim vettvangi og það er löggjafans að breyta grunnskólalögunum ef með þarf. Þeim hefur verið breytt oft og tíðum í gegnum árin. Rifja ég þar upp ágæt orð míns ágæta skólameistara norður í landi, Tryggva Gíslasonar, sem sagði einhverju sinni að það eina sem vantaði í grunnskólalögin væri að börnum ætti að líða vel, sem væri ágæt viðbót við annars ágæt grunnskólalög. Partur af því að manni líði vel er að maður nærist vel og þekki vel til þess matar sem maður setur ofan í sig. Ég tel að nú um stundir sé mjög rík þörf á að efla áhuga alls almennings, sérstaklega unga fólksins allt niður í sex, sjö ára aldur, á því hvaða mat best er að neyta og hvernig menn geta stælt sinn skrokk með því að neyta bestu fáanlegrar fæðu á hverjum tíma.

Grunnskólinn á auðvitað ekki að sinna öllum atriðum í uppeldi og að einhverju leyti eiga foreldrar vitaskuld og forráðamenn barna að sjá til þess að börnin hafi aðgang að góðum mat, en þetta málefni lýtur engu að síður að fræðslu og fræðsluskyldu ef svo ber undir. Þar á skólinn að taka við. Þess vegna vekur það í sjálfu sér sérstaka athygli þess sem hér stendur að næringarfræði er kennd af mjög skornum skammti í skóla sem við kennum við grunn þjóðarinnar. Þar höfum við verið að sækja fram á margvíslegum sviðum á undanförnum árum, t.d. er varðar lífsleikni og umhverfisvitund og annað í þeim dúr sem er allt af hinu góða. En þegar kemur að skrokknum sjálfum, að nærast, er eins og það sé eitthvert atriði sem megi vera óbætt hjá garði. Ég tel að svo eigi ekki að vera. Við kennum krökkum hvernig þeir eiga að hreyfa sig í leikfimi og fimleikum en við eigum líka að kenna þeim hvernig eigi að nota skrokkinn að innanverðu með því að borða vel og borða rétt. (Forseti hringir.) Þess vegna hvet ég hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra til að (Forseti hringir.) huga að þessum málum og efla kennslu í næringarfræði í skólum landsins, börnum til heilla.