141. löggjafarþing — 14. fundur,  8. okt. 2012.

kennsla í næringarfræði.

157. mál
[17:16]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir hennar ágætu svör við þessari fyrirspurn og lifandi áhuga á málefninu. Það er brýnt að við hugum að grunnskólastarfinu og eftir atvikum leikskólastarfinu líka með þetta í huga vegna þess að vandinn blasir víða við okkur í hinum vestræna heimi.

Offita er að verða að einu helsta heilbrigðisvandamáli hverrar þjóðar og mjög erfitt að taka á þeim málum þegar helftin af þjóðinni er komin í yfirvigt. Börn eru ekki undanskilin í þessu efni. Aðgangur alls almennings, þar á meðal barna, að hvers kyns mat hefur aukist gríðarlega á undanförnum árum með fjölgun vörutegunda og verslana. Því er brýnt að halda uppi málefnalegum áróðri, vil ég segja, til að börnin viti það frá fyrstu hendi, frá þeim sem gerst þekkja og frá fræðunum hvernig þau eiga að umgangast mat.

Ég hvet hæstv. ráðherra í þessum efnum og vænti þess að hún muni beina því til ráðamanna innan síns ráðuneytis að sérstakur gaumur verði gefinn að þessu máli því að við erum einfaldlega að fjárfesta í velsæld barna okkar og það er vel. Vána þekkjum við. Vandamálið þekkjum við, það blasir við. Það er að aukast og þess vegna er eðlilegt að boðið verði upp á næringarfræði um það hvernig krakkarnir okkar geta varast offituvandamálið í auknum mæli innan skólakerfisins sem er jú skylda.